Æfingaakstur á þjóðveginum.
Þergar við ókum í bústaðinn á föstudagskvöld lentum við í bílalest sem ók óvenjuhægt. Rokkaði frá 60-70km hraða á þjóðveginum á milli Mosfellsbæjar og Hvalfjarðaganga. Á milli okkar voru átta bílar, þannig að sá næstfremsti bjó til röðina, þannig virka bílalestir.
Smátt og smátt heltust bílar úr lestinni, sumir fóru úr röðinni á Kjalarnesi, tveir beygðu inn Hvalfjörðinn og einn tók framúr fremsta bíl rétt við göngin, þannig að þegar í göngin var komið var bara einn bíll á milli okkar.
Ekki skánaði ástandið í göngunum, þar silaðist þessi bíll áfram á 40-50km hraða, en í göngunum er 70km hámarkshraði. Við hjónin vorum farin að velta því fyrir okkur í alvöru að hringja á lögregluna, okkur þótti þessi akstursmáti það undarlegur. Okkur grunaði helst að þarna væri ökmaður í annarlegu ástandi og væri að vanda sig afskaplega mikið við aksturinn. Hin skýringin sem við settum fram að ökumaður væri afar roskið gamalmenni og æki eftir bestu getu.
Þegar loks var komið að brekkunni í göngunum gafst tækifæri til framúrakstur og bíllinn fyrir framan okkur brunaði framúr og við strax í kjölfar hans. Þegar við loks komumst fram úr bílnum sem hafði ekið svo annarlega sáum við að að þarna var ungur ökumaður í æfingaakstri ásamt föður sínum.
Ekki tók betra við á heimleiðinni í dag, á kaflanum milli Kjalarness og Mosfellsbæjar var einmitt lestarstjóri sem ók á 60-80km hraða, yfirleitt nær 60, við allra bestu aðstæður á Þjóðvegi 1 þar sem er 90km hámarkshraði. Þegar við loks komumst fram úr honum á hringtorgi í Mosfellsbæ sáum við að þarna var kennsluakstur í gangi.
Mér finnst afar furðulegt að fara með barnið sitt í æfingaakstur rétt rúmlega sjö á föstudagskvöldi þegar nokkuð þétt umferð er úr bænum. Aðstæður voru með besta móti, skyggni gott og veður milt. Því var engin ástæða til að halda unglingnum á innan við 70km hraða þar sem hámarkshraði er 90. Einnig var alveg glórulaust að fara gegnum göngin á 40-50km hraða því þar er ekki nokkur leið að komast framúr fyrr en þegar komið er í brekkuna norðanmegin.
Fyrsta lexía þessa föðurs hefði mátt vera sú að kenna unglingnum að aka út í kant þegar færi gafst og hleypa lestinni framúr sér. Þá hefði hann kannski lært eitthvað gagnlegt.
Í staðin lærði hann ekki hvernig aka skal á þjóðveginum og alls ekki hvernig aka skal í Hvalfjarðargöngum.
Þeir sem aka á meira en 20km undir hámarkshraða eru nefnilega líka að valda hættu á þjóðveginum,alveg eins og þeir sem aka langt yfir hámarkshraða og stunda stífan framúrakstur.
Haukur - 05/03/06 15:55 #
Mikið er ég sammála.
Lenti í svipuðu um síðustu helgi, var á leiðinni í bæinn og í Hvalfjarðargöngunum. Er þar fyrsti bíll á eftir nýlegum BMW X5 jeppa sem lullaði á 50 km hraða í gegnum göngin. Auðvitað myndaðist löng lest á eftir honum, enda ekki nokkur leið að stinga sér frammúr þarna í miðjum göngunum (Þó svo að nokkri óþolinmóðir hafi gert það og skapað töluverða hættu). Ég blikkaði bílinn en það hafði engin áhrif.
Loksins þegar við komum uppúr göngunum tók ekki betra við, viðkomandi lullaði áfram og beint á VINSTRI akrein, var semsagt ekkert að pæla í þeirri sjálfsögðu reglu að halda sig á þeirri hægri.
Í þann mund sem ég var að taka framúr viðkomandi, þá loksins ákvað vinan að smella sér yfir á hægri.
Þetta var kona á fimmtugsaldri, greinilega geysilega stressaður ökumaður. Afhverju er svona fólk á BMW X5 jeppa? :)
Matti - 05/03/06 15:59 #
Loksins þegar við komum uppúr göngunum tók ekki betra við, viðkomandi lullaði áfram og beint á VINSTRI akrein, var semsagt ekkert að pæla í þeirri sjálfsögðu reglu að halda sig á þeirri hægri.
Nákvæmlega það sama gerðist í dag, bíll með kerru ók rólega í gegnum göngin á suðurleið og það var komin dálítil lest. Þegar upp úr göngum var komið fór kerrubíllinn rakleiðis á vinstri akreinina. Tveir bílar tóku fram úr honum á hægri en ég þorði ekki þar sem mér sýndist kerrubíllinn vera við það að skipta um akrein aftur. Brunaði svo framúr honum skömmu síðar á beinum kafla.
Það virðast margir verða stressaðir í göngunum og aka þar á 50, afar hvimleitt.