Örvitinn

Henson - Stormur

Henson 6 - 1 Stormur

Leikurinn fór fram klukkan níu á Framvelli. Samkvæmt veðurspá átti að vera stormur en veðrið var ekki svo slæmt, í fyrri hálfleik spiluðum við ská á móti nokkuð hvössum vindi en í seinni hálfleik lyngdi og veðrið alveg þokkalegt.

Mætingin hjá okkur var fín, vorum með fimm skiptimenn og gátum róterað. Ég spilaði minn fyrsta leik í nokkurn tíma, virðist búinn að jafnan mig eftir tognun.

Eins og ég sagði spiluðum við fyrri hálfleik á móti strekkingsvindi. Lögðum því upp að spila frekar varlega og reyna að ná tökum á leiknum, stilltum því upp 4-5-1 með Óla sem framliggjandi miðjumann, Orra vinstra megin og Lárus hægra megin. Það gekk ágætlega, við héldum boltanum þokkalega og áttum ágætar sóknir. Sóknartilburðir Storms fólust fyrst og fremst í frekar löngum boltum sem var dæmt til að mistakast.

Um miðjan hálfleikinn lék Óli á varnarmenn Storms og lagði boltann snyrtilega í gegn á Lárus sem kláraði færið vel. Ekki leið á löngu þar til við settum annað mark, Pétur átti fyrirgjöf sem Lárus skallaði snyrtilega í mark. Eftir þetta kom kafli þar sem Stormur var meira með boltann, eins og menn misstu aðeins einbeitingu, en þeir sköpuðu sér þó ekki mjög hættuleg færi. Orri setti svo þriðja markið, ég man eiginlega ekkert hvernig það var :-)

3-0 í hálfleik og sigurinn nokkurn vegin í höfn. Ég breytti liðsuppstillingu aðeins, fór í 3-4-3 og skelli sjálfum mér í senterinn. Það gekk kannski ekkert rosalega vel, kantarnir voru ekki alveg að fúnkera varnarlega, en ég hef samt mikla trú á þessu kerfi :-) Ég byrjaði semsagt inná í seinni hálfleik og lék fyrstu tíu mínúturnar eða svo. Skipti mér svo útaf, alveg búinn á því.

Við héldum samt áfram að sækja og áttum margar góðar sóknir, sóttum oft vel upp kantana og hefðu mátt setja fleiri mörk. Ég fékk gott færi eftir að Ívar hafði gefið á mig, sendingin var aðeins of framarlega og ég þurfti að renna mér í boltann, náði ekki að skora þar sem markvörður þeirra var með leiðindarstæla og varði :-)

Orri skoraði fjórða markið úr víti sem hann fiskaði sjálfur, brotið á honum þar sem hann lék inn í teig hægra megin. Vítið afgreiddi hann af miklu öryggi. Þegar þarna var komið við sögu ákvað ég að hræra aðeins í liðinu, fór í 4-4-2 og leyfði miðvörðunum að fara í sóknina. Gestur og Pétur tóku við vörninni meðan Axel og Kjartan fóru fram, þeir gerðu ágæta hluti en náðu ekki að setja mark, það tókst Viffa aftur á móti, lék glæsilega upp teiginn hægra megin, sólaði mann og annann og smellti svo boltanum út við stöng.

Þegar þarna var komið við sögðu hafði ég skellt sjálfum mér inn á aftur, þurfti að fá að spila aðeins þar sem ég hef nú misst af síðustu leikjum og þetta var lokaleikur tímabilsins. Fór í hægri kant, dró mig reyndar aftur fyrst og rak Viffa fram en fór svo framar á völlinn. Fékk afar gott færi eftir að Kjartan hafði leikið í gegn vinstra megin og lagt á mig fyrir opnu marki. þrátt fyrir að ég vandaði mig gríðarlega náði markvörðurinn að verja boltann í slá en þaðan fór tuðran í varnarmann sem kom aðsvífandi og af honum í markið.

Þeir skoruðu eitt mark eftir ágæta sókn, ég held það hafi ekki haft úrslitaáhrif að miðverðirnir voru komnir í senterinn, held menn hafi almennt verið frekar latir við að bakka þegar þarna var komið við sögðu.

Þetta var góður leikur hjá okkur, menn höfðu gaman af þessu og spiluðu frekar afslappað eftir að við náðum tveggja marka forystu. Sóttum stíft upp kanta og fengum fullt af færum. Botninn fór reyndar úr spili Storms þegar þeir voru komnir undir en það verður ekki af okkur tekið að við vorum að gera ágæta hluti.

Ég náði að spila 20-30 mínútur og tognaði ekki þrátt fyrir nokkra spretti (sem reyndar myndust ekki telja sprettir ef miðað væri við tímatöku en ég hljóp samt eins hratt og ég gat). Held ég hafi bara gert ágætis hluti á köflum.

Að mínu mati voru Óli og Orri einna sprækastir í kvöld en allir áttu þó góðan leik.

Fínn endir á tímabilinu. Við enduðum í fjórða sæti með tuttugu stig, þremur á eftir Bundes í þriðja sæti. Þetta er viðunandi niðurstaða, hefðum getað gert betur en klúðruðum niður tveimur leikjum á lokasekúndu þeirra, þau mistök voru frekar dýrkeypt.

Eftir leik fórum við flestir á Celtic Cross og vættum kverkarnar. Þarnæsta föstudag verður svo lokahóf, stefnir allt í að það verði ógurlegt fyllerí.

utandeildin