Örvitinn

Veski fornleifafræðingsins

Við kíktum á Kárahnjúka fyrir nákvæmlega viku. Ókum frá Egilstöðum, brunuðum til Egilstaða frá Djúpavogi þar sem við höfðum eytt vikunni. Þar sem vegaframkvæmdir voru í gangi á spottanum milli Egilstaða og Hallormsstaða ákváðum við að aka hinum megin við fljótið á bakaleiðinni þó þar sé ekki bundið slitlag.

Höfðum ekki ekið lengi á malarveginum þegar mér sýndist ég sjá fugl á veginum. Hægði á ferðinni og sá þegar nær var komið að þarna var veski á miðri götu. Ég greip veskið og við rýndum í innihaldið. Sáum að eigandi veskisins var starfsmaður Fornleifastofnunar (hann var með fyrirtækjakort), í veskinu var urmull korta (grínlaust, ég hef sjaldan séð jafn mörg greiðslukort) og einhverjir peningar (evrur). Ég hringdi strax í 118 og fékk uppgefið heimanúmer eigandans, gemsanúmerið var ekki skráð. Hringdi þangað og náði sambandi við konuna hans sem sagði mér að hann væri að vinna uppi við Kárahnjúka og væri á leiðinni til Reykjavíkur með næstu vél frá Egilstöðum. Sú vél átti að fara í loftið klukkan sjö og þegar þarna var komið við sögu var klukkan tæplega hálf sjö og við um tuttugu kílómetra frá Egilstöðum.

Við brunuðum áfram að flugvellinum og náðum í tæka tíð. Ég rölti á flugstöðina en gekk framhjá fornleifafræðingnum, þekkti hann ekki þar sem hárið var orðið töluvert silfraðra en á myndunum á kortunum. Endaði með því að hringja í hann og finna hann útfrá hringingunni.

Hann var afar þakklátur, hafði stoppað til að skipta úr drullugallanum og lagt veskið ofan á bílinn. Gleymdi veskinu þar og því endaði það á miðjum malarvegi fyrir ofan Lagarfljót. Hann hafði ekki hugmynd um að veskið væri glatað þegar ég fann það og hringdi. Ég var ósköp ánægður með að hafa reddað þessu.

Hvað um það, ég vona að sá sem finnur veskið mitt hafi eitthvað örlítið fyrir því að koma því til skila. Á samt ekkert endilega von á því. Það hefur enginn hringt.

dagbók
Athugasemdir

Eva - 14/08/05 09:04 #

Skrýtið hvað frekar ómerkileg smáatvik í lífi manns virðast stundum kallast á.