Góður sumardagur
Laugardagurinn kom bara nokkuð vel út. Ég svaf að sjálfsögðu frameftir, sem var fínt. Byrjuðum daginn í Rúmfatalagernum þar sem við fjárfestum í uppblásanlegum dýnum, rafmagnspumpu, ferðagasgrilli, stólum, borði og einhverju smotteríi í viðbót. Þetta kostaði fáránlega lítið. Skelltum okkur þvínæst í Garðabæinn og borðuðum hádegismat úti í sólinni. Ég náði smá lit (les: brann). Var orðinn hræddur um að brenna á mér skallann og gekk því með derhúfu þar sem eftir var dags.
Kíktum svo í Ellingsen og keyptum gaskús, hellu á hann og eitthvað smotterí.
Þegar heim var komið ætlaði ég að slá garðinn en fékk þá flugu í höfuðið þegar við vorum að henda draslinu í bílskúrinn að það væri kominn tími á hin árlegu bílþrif. Þreif því bílinn og bónaði (næstum allan). Djöfull er lakkið illa farið, lítur út fyrir að fólk fái einhverja fróun úr því að opna bílhurðir og skella þeim í minn. Bíllinn er semsagt skárri en hann var, fyrir utan álfelgurnar, þær eru enn jafn hrikalega viðbjóðslegar. Þarf að fá sérfræðinga til að redda því máli.
Sirrý hringdi og stakk upp á að við kæmum og grilluðum. Við kíktum í Nóatún og keyptum ansi gottlambakjöt, sætar kartköflur og viðbjóðslega grillsósu. Þjónustan í kjötborðinu í Nóatúni í Hafnafirði var frekar viðvaningsleg, a.m.k. hafði ungi strákurinn sem afgreiddi okkur ekki hugmynd um hvaða ket þetta var. Kvöldmaturinn var fínn, frábært að borða úti á palli í kvöldsólinni í Hafnafirði. Ekki sakaði að Baddi bauð upp á bjór :-)
Á morgun ætla ég að slá garðinn og grilla nautakjöt.
Tók myndir.