Örvitinn

Henson - Kóngarnir

Henson 1 - 2 Kóngarnir

Úff, það er fúlt að tapa á þennan hátt.

Leikurinn fór fram í þokkalegu veðri á Framvelli. Smá vindur og skýjað.

Við lékum fyrri hálfleik með vindinn í bakið. Leikurinn fór ágætlega af stað, við áttum ágæta leikkafla og vorum betri til að byrja með. Það entist þó ekki mjög lengi og þegar líða tók á hálfleikinn datt botninn úr spili okkar og þeir náðu yfirhöndinni. Þeir voru samt ekki að gera neitt sérlega merkilegt, við áttum bara í bölvuðum vandræðum með að halda tuðrunni. Þeir voru fjölmennari á miðjunni og voru að vinna baráttuna þar oft á tíðum.

Eftir um hálftíma leik komust þeir í gegn hægra megin eftir að hafa brotið á Pétri. Sjöan, þeirra sprækasti maður, lék upp að endalínu og náði á einhvern hátt að klafsa sig í gegn og skora úr afar þröngu færi.

1-0 í hálfleik.

Í seinni hálfleik vorum við sprækari, náðum að halda boltanum aðeins betur innan liðsins en vorum ekki nógu beittir fram á við. Um miðjan hálfleik fengum við aukaspyrnu fyrir framan miðjan teig þeirra. Pétur tók spyrnuna yfir vegginn og beint í þverslána, Kjartan náði að fylgja eftir og jafnaði leikinn.

Þegar þarna var komið við sögu vorum við búnir að vera betra liðið en eftir að við skoruðum datt botninn úr þessu aftur. Við hættum að gera spilað á milli manna, gerðum alltaf mikið af því að bomba fram og það var eins og menn væru hræddir við tuðruna.

Liðin sóttu á báða bóga, þeir áttu nokkur góð færi og við þokkaleg færi líka. Ívar var nálægt því að ná að skalla eftir góða sendingu af vinstri kanti og Lárus komst upp að endalínu hægra megin en sendingin fyrir varð að skoti í hliðarnetið á sama tíma og þrír menn voru fríir í teignum.

Á síðustu mínútu leiksins fengu þeir vafasama aukaspyrnu á miðjum velli. Í teignum var gríðarlegur barningur, leikmenn Kónganna beittu bolabrögðum, héldu meðal annars í Axel og fleiri og þrátt fyrir kvartanir til dómara gerði hann ekki neitt. Fyrirgjöfin kom inn í teig og þeir náðu að skalla boltann inn. Þetta mark átti aldrei að standa, þetta var pottþétt aukaspyrna á sóknarmenn þeirra, varla er það lögleg taktíkt að halda bara öllum varnarmönnum?

Hvað um það, við náðum ekki að taka miðju - mark þeirra kom á síðustu sekúndu leiksins. Helvíti fúlt að tapa, miðað við gang leiksins hefði þetta átt að vera jafntefli en svosem lítið við því að gera.

Leikurinn fór nokkuð drengilega fram, eitthvað um brot en ekkert mjög gróft. Dómarinn var ágætur, var ekki að flauta í eins og brjálæðingur en hefði réttilega mátt dæma á nokkur atvik. Bæði mörk þeirra komu eftir umdeilda dóma eða í fyrra atvikinu, ekki dóm. Samt, skárra að hafa svona dómara sem láta leikina fljóta. Bæði lið tuðuðu frekar mikið, ég var ekki saklaus af því frekar en aðrir. Tuð er náttúrulega fullkomlega tilgangslaust en maður missir sig stundum.

Ég byrjaði leikinn í vinstri bakverði. Fór svo í hægri bak og lék undir lok hægri kant og frammi. Átti þokkalegan leik, gerði samt helst til of mikið af því að senda langar sendingar fram í fyrri hálfleik en í seinni hálfleik reyndi ég að spila boltanum betur. Má þó leggja mig fram um að taka mér meiri tíma stundum, oft betra að taka fleiri snertingar í stað þess að reyna galdrasendingu með fyrsta touchi. Gerði ágæta hluti varnarlega og náði að stoppa sjöuna nokkrum sinnum, reyndar í einhver skipti með því að brjóta á honum.

utandeildin