Þjóðhátíðardagurinn
Við fórum semsagt í bæinn í gær, lögðum af stað í hádeginu. Lögðum rétt hjá tanngarði og röltum í bæinn. Hefðum getað lagt nær, en það var fínt að labba í gegnum bæinn.
Byrjuðum í Kastalagarðinum þar sem stelpurnar hoppuðum meðal annar dálítið. Kíktum á Brúðubílinn klukkan tvö og fórum á Arnarhól eftir það. Dálítið langt að ganga milli atriða fyrir litlar stelpur en á móti kemur að fólk dreifðist ágætlega um miðborgina.
Sátum á Arnarhóli í dágóða stund, hittum Jónu Dóru og fjölskyldu þar. Settumst á Austurvöll í smá stund, stelpurnar fengu sér pylsu til að seðja hungrið. Þar var náttúrulega áfengisdauður róni, eflaust drukkið aðeins of mikið af Kardimommudropum. Kolla hitti að sjálfsögðu einhvern til að leika við, ég elti þær eins og skugginn, auðvelt að týna börnum í þessari mannmergð.
Kolla kvartaði (og gerir enn reyndar) undan verk í eyra allan daginn þannig að við ákváðum að kíkja með hana til læknis. Ætluðum á Læknavaktina en gengum framhjá Barnaspítalanum á bakaleiðinni og ákváðum að athuga hvort það væri hægt að skoða hana þar. Þau vísa engum frá þannig að það reyndist lítið mál. Læknirinn sá bara roða, ekki nógu mikil að skrifa upp á pensilín. Við skutumst því í Apótek og keyptum verkalyf áður en við skelltum okkur aftur í bæinn. Kolla hefur ekki sofið vel undanfarnar nætur og vaknaði meðal annars grátandi í nótt :-(
Fórum á La Primavera og fengum okkur kvöldmat. Afar góður matur en ekki alveg ókeypis! Ég fékk að sérpanta risotto, svosem lítið mál fyrir þá þar sem þeir eru með risotto sem meðlæti með skötusel þannig að ég fékk risotto með blönduðu sjávarfangi. Áróra Ósk var meira að segja afar ánægð með matinn sinn. Vorum mun sáttari en síðast.
Fórum á tónleikana á Arnarhóli eftir matinn, sáum Stuðmenn spila. Kolla var ekkert alltof ánægð, hávaðinn fór illa í hana og hún kúrði í fangi pabba síns mestan tímann. Við yfirgáfum svæðið því þegar Stuðmenn voru að ljúka sínu prógrammi. Stoppuðum hjá leiktækjunum hinum megin við hólinn í smá stund áður en við yfirgáfum svæðið.
Alveg ágætur dagur þrátt fyrir minniháttar uppákomur. Endaði á því að horfa á Sjötta skilningarvitið í sjónvarpinu. Fyrsta sinn sem ég sé þá mynd aftur, gaman að sá í henni þegar maður þekkir plottið.
Ég tók slatta af myndum. Tók eftir því þegar ég fór yfir myndirnar í gærkvöldi að það var hrikalegur blettur á skynjaranum. Gat lagað myndirnar með photoshop og hreinsað skynjarann.
Már - 18/06/05 21:02 #
Mig grunar að hún kunni ekki að meta þær ennþá, en mikið svakalega er dóttir þín með flottar freknur! (segir einn rauðhæður og fyrrum freknóttur.)
Við ákváðum að forðast miðbæjartorðninginn eins og pláguna, og eyddum í staðinn gærdeginum í hálftómum Fjölskyldu- og húsdýragarði með vinum og vinabörnum. Það var góð ákvörðun.