Henson - BR
Henson 2 - 1 BR
Leikurinn fór fram við bestu aðstæður á Framvelli kl. 18:00 í kvöld. Mætingin var ágæt hjá Henson en reyndar skiluðu sumir sér ansi seint og aðrir mættu örlítið of þunnir.
BR byrjaði leikinn betur og pressaði ágætlega fram á við, Henson fékk samt fínar sóknir en óhætt er að segja að BR hafi verið meira með boltann til að byrja með.
Eftir um 30 mínútur fengum við aukaspyrnu við miðju vinstra megin, Pétur tók spyrnuna og gaf upp kantinn þar sem Kjartan flikkaði boltanum á Orra sem lék upp að endalínu og gaf góðan bolta á Óla sem kláraði færið. Gott mark eftir glæsilega sókn.
BR jafnaði leikinn eftir að dómarinn dæmdi stórfurðulega aukaspyrnu. Pétur stökk upp í skallabolta og hafði betur en slakur dómari leiksins dæmdi bakhryndingu á Pétur. Algjört rugl. Úr spyrnunni skoruðu BR, en Axel var afar nálægt því að blokkera skotið. Semsagt, algjört grísamark eftir rugl dómgæslu.
Við vorum ekki hættir, Pétur fékk boltann fyrir utan teiginn hægra megin, lék meðfram teignum og leitaði að skotfæri sem ekki gafst, var að lokum kominn vinstra meginn við teiginn. Gaf þar háan bolta á fjærstöng og þar var enginn annar en Óli mættur og kláraði færið.
Seinni hálfleikur var ansi kaflaskiptur, BR átti nokkur færi og hefðu getað jafnað leikinn en við fengum líka nokkur dauðafæri, meðal annars fékk Óli gott færi strax í byrjun hálfleiksins, Viffi skallaði boltann inn í teig og Óli var kominn einn á móti markmanni, reyndi að vippa yfir hann en ágætur markvörður þeirra varði. Kjartan komst einn í gegn eftir góða sendingu frá Viffa, fékk góðan tíma en náði ekki að skora, vel gert hjá markverði þeirra. Ívar fékk svo mjög gott skallafæri í lokinn eftir góða sendingu Gunna. Ekki mál gleyma því þegar við náðum fjórum markskotum í sömu sókninni, en inn vildi boltinn ekki. Það er því alveg ljóst að við hefðum getað bætt við 2-3 mörkum.
BR spilar grófan bolta. Ég missti tölu á fáránlegum tæklingum þeirra, hvað eftir annað komu þeir allt of seint í návígi og spörkuðu í manninn en ekki boltann. Þetta var orðið hálf hlægilegt, sérstaklega þegar þeir sökuðu menn um leikaraskap í kjölfarið. Það er óþolandi að spila á móti svona liðum í þessari deild og að mínu mati óafsakanlegt þegar dómari leyfir mönnum að komast upp með svona rugl. Það er óskiljanlegt hvernig þeir náðu að klára leikinn með ellefu leikmenn. Þrír leikmenn Henson meiddust eftir brot í þessum leik, enginn leikmaður BR.
Eflaust munu þeir, eins og öll önnur lið, tala um hve heppnir við vorum og að þeir hafi verið miklu betra liðið í kvöld. Það er lítið við því að segja, menn einblína á það sem þeir vilja sjá. Vissulega hefðu þeir getað skorað annað mark í þessum leik, en við hefðum átt að skora a.m.k. tvö í viðbót.
Menn voru að vinna vinnuna sína í dag, Pétur var öflugur á miðjunni. Ívar og Kjartan gerðu ágæta hluti frammi og Óli kom öflugur inn og setti tvö mörk. Jón varði vel í markinu, sérstaklega strax í byrjun, það hefði verið hrikalegt að lenda undir eftir tvær - þrjár mínútur en Jón reddaði málum.
Ég spilaði 5-10 mínútur á vinstri kanti undir lokin, var upptekinn við að reyna að stjórna fram að því, gerði svosem engar gloríur og fann fljótt fyrir formleysi en tók þó þátt í þessu í smá tíma.
Matti Á. - 13/06/05 10:27 #
Viti menn, ég reyndist sannspár
Leikurinn áðan á móti henson hefi átt að vinnast ef allt hefði verið með réttu Við vorum mikið mun betri. En það hafðist ekki að sigra þá.Reyndar virðast þeir ekki hafa tekið mjög vel eftir, tala um að við höfum skorað eftir hraðaupphlaup í seinni hálfleik. Staðan var 2-1 í hálfleik, kannski eru þeir að ruglast á öllum dauðafærunum sem við fengum einmitt í seinni hálfleik :-)
...
Ósangjar sigur en það er víst ekki spurt að því í fótboltanum og óska ég henson til hamingju með þennan sigur.
Bragi - 13/06/05 10:47 #
Ekki við öðru að búast frá fólki hvers liðsmerki inniheldur stafsetningavillu. Boltafelg Reykjavíkur
Vigfús - 13/06/05 14:27 #
Fjórir leikir og fjórir grísasigrar. Þetta hlýtur að vera heppnasta liðið í sögu utandeildarinnar. Við reynum bara að vera minna heppnir næst !