Örvitinn

Lyftusýki

Ég forðast lyftur. Rölti frekar upp þrjár hæðir hér í vinnunni en að taka lyftuna, geri undantekningu ef ég er samferða einhverjum. Sama gerði ég á síðasta vinnustað, rölti frekar en að taka lyftu upp tvær hæðir. Kerlingarnar í útibúinu tóku alltaf lyftu upp eina hæð. Mér er ekki illa við lyftur, finnst bara að þegar hæðirnar eru þrjár eða færri séð það ógurleg letiláta halda á sér.

Held samt að fátt toppi það að sjá fullfríska konu á besta aldri taka lyftu niður eina hæð í ræktinni í hádeginu.

Stundum óskaði ég þess samt að það hefði verið lyfta í Álfheimunum þegar ég bjó þar á fjórðu hæð, fimmtu frá gangstétt. Sérstaklega þegar ég kom klyfjaður heim úr kjörbúðinni. Tamdi mér þá, af einskærri leti, að rölta alltaf upp með alla pokana í einni ferð, sama hvað þeir voru margir. Nennti ekki að fara margar ferðir. Var oft ansi aumur í höndunum þegar ég náði á efsta pall.

Fæ ennþá hroll þegar ég hugsa til þess þegar ég hélt á þvottavélinni upp ásamt ólánsömum greiðabílstjóra.

Ýmislegt