Ósætti feðgina í morgun
Þessi morgun gekk ekki nægilega vel. Í fyrsta lagi sváfum við öll frekar lengi. Ég snúsaði til hálf níu, fór þá loks á fætur og sótti Kollu sem steinsvaf, fór með hana í rúmið mitt og þar kúrðum við áfram þrjú, ég, Kolla og Inga María. Kolla gafst svo upp á letinni og fór fram og klæddi sig. Vorum öll komin á fætur tíu mínútum fyrir níu.
Við vorum því frekar seint á ferðinni, sem er slæmt því á mánudögum er hópastarf hjá Kollu. Fengum okkur morgunmat og drifum okkur af stað.
Ósættið kom þegar Inga María var að klæða sig í skóna, hún ætlaði sér að klæða sig sjálf en gerði svo ekki neitt! Að lokum tók ég af henni skóna og klæddi hana, henni til mikillar armæðu. Ég þurfti að halda á henni organdi út í bíl og hún vældi alla leiðina í leikskólann.
Þegar þangað var komið fór Kolla inn á sína deild en ég settist niður með Ingu Maríu og reyndi að ná sáttum. Knúsaði hana og róaði, held hún hafi fyrirgefið mér. Kolla kom þá röltandi, hópastarf féll niður í dag vegna veikinda fóstrunnar sem sér um það. Vesenið, stressið og leiðindin að ástæðulausu :-|
Ingibjörg Stefánsdóttir - 18/04/05 14:18 #
Mikið þekki ég þetta vel með að vilja sjálf: "ég get sjálf" heyrist oft á dag frá dóttur minni sem er þriggja ára. Svo getur hún ekki alltaf sjálf (nú eða gerir ekki það sem á að gera) og þá verða leiðindi og vesen. Hvað er Inga María annars gömul?