Örvitinn

Allra besta lagi

Svaf til næstum tíu í morgun! Stelpurnar vöknuðu töluvert fyrr og léku sér meðan pabbi þeirra kreysti út fleiri mínútur. Borðuðum morgunmat í rólegheitum og mættum svo um hálf ellefu á leikskólann. Kolla kvartaði undan slappleika í morgun, líkt og í gærmorgun. Vonandi ekki að verða veik.

Var á fótboltaæfingu til hálf tólf í gærkvöldi, á ekkert sérlega auðvelt með að sofna snemma eftir æfingar. Á ekki auðvelt með að sofna snemma yfir höfuð þessa dagana. Fín æfing í gærkvöldi, sextán mættir. Skárra en í fyrra þegar meðal mæting var tíu manns eða svo. Ég vakti til rúmlega tvö.

Juventus - Liverpool í kvöld. Ætli maður verði ekki að mæta snemma í reykkompuna til að fá sæti. Ekki er ég bjartsýnn enda meiðslasaga Liverpool hálfgerður farsi, gæti verið kafli í Birtingi. "Þetta er allt í allra besta lagi" myndi Altúnga segja, en svo meiddist Gerrard, þá held ég að meira að segja Altúnga hefði misst vonina.

dagbók