Örvitinn

Dagblaðahrúga

Fékk öll dagblöð landsins inn um lúguna í morgun. Fréttablaðið kemur að sjálfsögðu alltaf, þessar vikurnar er Mogginn svo að reyna að sannfæra okkur um eigið ágæti og í morgun bættist DV í hópinn. Furðulegt með DV, þeir hringdu um daginn og buðu okkur að fá blaðið ókeypis til prufu en við höfnuðum því, samt kom blaðið ásamt bréfi sem ég las ekki.

Fletti hratt í gegnum bunkann við morgunverðarborðið. DV er sorp - sorry, það er bara mitt mat. Mogginn var heldur rýr og Fréttablaðið í morgun var eiginlega bara aukablað með fasteignablaðinu sem fylgir. Íþróttafréttir les ég varla lengur, fæ allar mínar fréttir af enska boltanum á netinu og hef ekki áhuga á hinu.

DV átti skrítnasta punkt dagsins þar sem nafnlaus pistlahöfundur gagnrýnir Kára Stefáns fyrir að svara nýársgrein Hallgríms Helgasonar. Pistlahöfundur vill meina að ekki sé hægt að svara Hallgrími þar sem hann sé grínisti og þetta sé allt saman djók. Þetta er hægt að kalla Michael Moore röksemdafærsluna. Ég man ekki betur en að gríðarleg umræða hafi skapast um grein Hallgríms og grein Kára er alveg ágæt.

Blaðburðarmanneskja moggans fær plús í kladdann því Mogginn er borinn í hús fyrir allar aldir í Bakkaselinu. Þegar ég var andvaka um daginn varð ég vitni að því að blaðinu var stungið inn um lúguna fyrir sex og blaðið er alltaf komið í hús áður en Gyða leggur af stað í vinnuna fyrir sjö.

Veit samt ekki hvort við gerumst áskrifendur, eiginlega ætti maður að gera það upp á samkeppnina - líst illa á ástandið ef Fréttablaðssamsteypan nær þessum ítökum sem þeir eru að stefna að á markaðnum. Þar stefna menn ekki bara á að eiga fjölmiðlamarkaðinn heldur auglýsinga og birtingabransann eins og leggur sig.

Verst hvað Mogginn er andskoti íhaldsamt og kristilegt blað. Sunnudagsmogginn gæti gottsem verið skrifaður á Biskupsstofu. Hvað er svo málið með heilsíðu stjörnuspána sem fylgir aukablaði Moggans á sunnudögum? Þar er enginn fyrirvari eins og með daglegu spánni. Á maður þá að draga þá ályktun að sú spá byggi á traustum grunni vísindalegra staðreynda (eða hvernig þetta er orðað)?

dagbók