Fótbolti sökkar
Mikið óskaplega leiðist mér að horfa á enska boltann þessar vikurnar. Meika þetta vonleysi ekki.
Rölti með Kollu í dansinn í morgun og tók myndir á leiðinni, tvær (1,2) sem ég er nokkuð ánægður með. Þegar Kolla var komin í dansinn skutluðum ég og Inga María Gyðu í vinnuna þar sem hún dundaði sér í allan dag. Í hádeginu fórum við á Arnarnesið án Gyðu. Þar horfði á ég þessa fótboltahörmung. Strax eftir leik brunaði ég með stelpurnar niðrí bæ og fjárfesti í þrífæti.
Fór í innibolta eins og alltaf á laugardögum, skemmtilegra að spila fótbolta en að horfa á hann. Boltinn gekk vel fyrir utan að eftir um tíu mínútna leik fékk ég skot í andlitið sem olli rosalegustu blóðnösum sem ég hef fengið. Hélt á tímabili að ég þyrfti að fara á slysó, slík var blóðbunan, en sem betur fer hætti að blæða á nokkrum mínútum og ég gat klárað tímann. Vaskurinn og klósettið í búningsklefanum var alblóðugt en ég þreif megnið og þurrkaði upp blóðslóðina líka.
Komum við á McDonalds á heimleiðinni og gripum kvöldmat - stelpurnar hafa verið að væla um þetta undanfarið og allt í lagi að láta þetta eftir þeim af og til. Ég prófaði einhverja kjúklingasamloku sem var ágæt. McDonalds klúðraði samt pöntuninni og það vantaði einn skammt af frönskum - alltaf pirrandi þegar bílalúgupöntun klikkar, ekki nennir maður að skjótast aftur útaf einum skammti af frönskum.
Breytti myndasíðunum örlítið - svartur bakgrunnur og hvítur rammi í kringum myndir. Finnst þetta koma ágætlega út. Ef þið sjáið engan mun gætuð þið þurft að endurhlaða síðuna. Bætti einnig inn auka upplýsingum, þ.e. lokunarhraða, ljósopi og breidd.