Morgunskýrsla
Fór á fætur klukkan átta í morgun. Vaknaði og leit á vekjaraklukkuna kl. 07:59. Slökkti áður en klukkan hringdi svo stelpurnar myndu sofa áfram.
Hef verið í bölvuðu rugli með svefn undanfarið, vakað til tvö/þrjú á næturnar og farið á fætur níu á morgnana. Haldið mér gangandi með magic drykkju. Fór að sofa klukkan ellefu í gærkvöldi, dauðþreyttur.
Kolla ældi í nótt. Hún hefur verið að kvarta útaf magaverk, fór heim úr leikskólanum í fyrradag en verið hress síðan. Kom uppí í nótt og var óróleg, ég fór fram með henni einu sinni en hún ældi ekki í það skiptið, Gyða fór svo með henni síðar og þá ældi hún.
Gyða er heima með stelpurnar en þarf að mæta í vinnuna klukkan eitt, ég tek þá væntanlega síðdegisvaktina nema Kolla sé nógu hress til að fara á leikskólann.
Las moggann í morgun og borðaði beyglu. Tók eftir því að Morgunblaðið í dag er þynnra en Fréttablaðið þrátt fyrir 2-3 opnur af minningargreinum. Fáum moggan ókeypis næstu þrjár vikurnar. Inga María og Gyða voru komnar á fætur þegar ég var að leggja af stað.
Rölti í vinnuna, klæddi mig vel og hlustaði á tónlist með símanum á leiðinni. Strætó stoppaði fyrir mér við gangbraut! Fínt að byrja daginn á stuttum göngutúr þegar maður er vel sofinn.