Örvitinn

Hitt og þetta

Inga María grætur af og til uppi í rúmi. Er verri af hlaupabólunni, bólunum hafði fjölgað töluvert í dag og núna klæjar hana óskaplega. Stefnir í erfiða nótt, ég mæti í vinnu eftir hádegi á morgun.

Ég fór í fótbolta í Fífunni í kvöld og átti magnaðan leik. Ok, var reyndar frekar latur á köflum enda spikfeitur, en inn á milli var stórkostlegur fótbolti í gangi í kringum mig, svo ég segi bara alveg eins og er. Þegar Maggi gaf langan bolta á mig inni í teig, ég tók hann á bringuna og svo með hjólhestaspyrnu í samskeytin fjær ætlaði allt að verða vitlaust í Fífunni. Eða ekki, þetta var samt ógurlega flott - merkilega mikið af góðum hlutum í gangi sóknarlega hjá mínu liði í kvöld, einnar snertingar bolti og heimsklassafyrirgjafir. Ég var eiginlega ánægðari með fullkomna sendingu sem ég átti fyrir mark, sem endaði með góðu skallamarki, en hjólhestaspyrnumarkið enda kom sú fyrirgjöf eftir afar gott spil. Gott spil veitir manni oft meiri ánægðu en flott einstaklingsframtak enda fótbolti hópíþrótt. Það er fátt jafn skemmtilegt og að spila fótbolta þegar vel gengur. Þá finnst manni að maður geti eitthvað og það er afar góð tilfinning.

Eini gallinn við að spila fótbolta milli tíu og ellefu á kvöldin er að það er erfitt að sofna.

Fernando Morientes er kominn til Liverpool, spilar vonandi eitthvað á móti United á Laugardag. Ég er þokkalega bjartsýnn fyrir þennan leik en það má ekki líta hjá því að vörn United er þokkalega þétt. Hef þó trú á að Baros og Morientes geti gert eitthvað á móti þeim.

Ekki hef ég nokkurn minnsta áhuga á að rökfræða fóstureyðingar. Hvað þá að rökræða fóstureyðingar við heitan kaþólikka. Nenni þessu bara ekki. Er fylgjandi fóstureyðingum, tel þær vissulega ekki fagnaðarefni en er þeirrar skoðunar að auðvelt aðgengi að fóstureyðingum fyrstu mánuði meðgöngu sé nauðsynlegt.

Sá síðustu fimm mínúturnar af einhverjum breskum fóstureyðingarþætti þar sem sýnt var frá fóstureyðingu. Mér þótti þetta ósköp eðlilegt og sjokkeraðist ekkert, varð aftur á móti um og ó þegar kellingin í Extreme Makeover var í sífellu að taka úr sér framtennurnar. Gat ekki horft á svoleiðis smekkleysu!

N.b. ég mun eyða athugasemdum þar sem gerð er tilraun til að rökræða fóstureyðingar hér, ég er ekki að grínast með að ég nenni ekki að rökræða þetta - kommentið frekar að ég sé góður í fótbolta og fagur með eindæmum.

dagbók
Athugasemdir

jogus - 13/01/05 21:49 #

Matti minn, þú ert gullfallegur. Gaman að sjá mikla hæfileika og fallega umgjörð fara saman. Og það upp á okkar litla skeri. Umm..

Matti Á. - 13/01/05 21:51 #

Þakka þér fyrir og mikið var :-P