Athugasemdir leiðréttar
Er ég eini bloggarinn sem lagfæri villur í athugasemdum? Þegar áberandi klaufavillur læðast inn í athugasemdir á þessa síðu lagfæri ég þær yfirleitt án þess að hafa hátt um það. Laumast einfaldlega til þess að leiðrétta stafsetningu, laga linka og svo framvegis. Finnst þetta bara vera hluti af því að halda svona síðu gangangi.
Yfirleitt þarf ég margar ítranir í gegnum texta til að koma honum sæmilega frá mér, þannig má gera ráð fyrir að fyrstu 15-20 mínútur eftir að eitthvað birtist á vefnum sé ég að laga augljósar villur og endurorða hlutina. Þegar ég skrifa athugasemdir á öðrum bloggum kemur það iðulega fyrir að ég geri stafsetninga- eða málfarsvillur, eitthvað sem ég sé ekki fyrr en næst þegar ég les. Aldrei hef ég tekið eftir því að nokkur hafi lagfært slíkar athugasemdir, samt finnst mér það afar eðlilegur hluti af því að vera með opna vefsíðu, jafn sjálfsagt og að strika yfir það sem manni finnst ekki við hæfi.
En hvað um það, ég hvet bloggara til að leiðrétta augljósar klaufavillur í athugasemdum. Þannig fúnkerar þetta allt saman einfaldlega betur.
Halldór E. - 28/12/04 12:22 #
Ég tek undir með þér Matti, ég reyni þetta líka ef ég tek eftir því. Nema þegar ég vil láta ummælin hljóma hálfvitalega áfram :-).
Árni Svanur - 28/12/04 19:02 #
Þetta er góð ábending. Ég hef nokkrum sinnum leiðrétt slíkar villur, en ekki verið nógu duglegur held ég. Leiðrétti þó eina í dag eftir ábendinguna þína í þessari færslu.