Ákaflega ómerkilegir atburðir
Áfram held ég að segja frá ákaflega ómerkilegum atburðum í mínu lífi, enda meiri virðing borin fyrir skrásetjara en lesendum í þessum bloggi líkt og flestum öðrum.
Gyða fer með stelpunum í leikskólaföndrið í dag, ég fór í fyrra og vill helst ekki endurtaka það þar sem ég er föndurfatlaður. Ég neyddist til að rífa mig á lappir fyrir allar aldir í morgun, það var dálítið erfitt þar sem ég var að lesa uppi í rúmi til að verða hálf tvö í nótt. Gyða sá til þess að ég snúsaði ekki oftar en einu sinni.
Vakti Áróru og tók svo smá skurk í tiltekt í eldhúsinu enda ekki vanþörf á. Tuðaði í Áróru, reyndi að fá hana til að borða morgunmat en hún "vildi ekkert", sötraði bara sitt te. Ég hef satt að segja áhyggjur af þessu og tel að hún þurfi, sérstaklega á þessum aldri, að borða staðgóðan og hollan morgunmat svo hún fúnkeri í skólanum. Ég fékk mér ristaða beyglu með osti, skinku, káli og tómat - gæddi mér á því meðan ég las Fréttablaðið. Þráinn fær ennþá að blogga aftan á því riti, megi hann rotna í helvítinu sem hann trúir á. (Ég bitur, neinei - er bara að krydda þessa frásögn)
Rölti í vinnuna og hlustaði á Rás 2, heyrði meðal annars viðtal við aldraðan sjómann á elliheimili, afskaplega þótti mér það sorgleg lýsing á ástandinu. Fólkið fær ekki einu sinni að ráða hvar það situr við hádegisborðið, hann kynntist konu á dvalarheimilinu og þau máttu ekki sitja saman þó sætið við hlið hans væri laust :-| Þó hann sé þokkalega sprækur verður hann að borga fyrir fulla þjónustu og mat, má ekki vera í t.d. hálfu fæði. Það er semsagt komið við (sum) gamalmenni eins og börn.
Mætti í vinnuna rétt rúmlega átta. Það hefur aldrei áður gerst. Hóf daginn á því að hreinsa kommentspam af Vantrú og loka fyrir athugasemdir á gömlum færslum. Kommentspammarar eru annars ágæt afsönnun fyrir tilvist einhvers æðra algóðs afls (Gvuðs), því ef slíkt skrípi væri til væri það löngu búið að rista á þeim kviðinn og draga úr þeim garnirnar!