Örvitinn

Gangbrautablús

gangbraut í Seljahverfi Það er áhugavert hvernig fólk kemur fram við ókunnuga í daglega lífinu. Við sumar aðstæður eru flestir tillitssamir, aðrar næstum allir ruddar. Í bíó troðast flestir en í jarðaför standa allir og bíða þar til kemur að þeim að ganga út.

Það eru ekki bara aðstæður sem skipta máli, það skiptir líka máli hver á í hlut. Sumir fá almennt betra viðmót frá náunganum en aðrir. Flestir koma betur fram við gamalmenni en unglinga, svo dæmi sé tekið.

Einu hef ég tekið eftir. Þegar ég er með dætrum mínum fæ ég oftast miklu jákvæðara viðmót. Faðir og dætur, hann hefur ekkert illt í huga.

Gangbrautir eru gott dæmi. Ég þarf aldrei að bíða á gangbraut með stelpunum mínum. Alltaf stoppar fyrsti eða annar bíll og hleypir okkur yfir. Þegar ég er aftur á móti einn á rölti, t.d. heim úr vinnu, stoppar aldrei nokkur til að hleypa mér yfir. Hér er ég ekkert að ýkja til að bæta frásögnina. Aldrei. Alltaf stend ég við gangbrautina þar til nógu langt er í næsta bíl að ég þori að hlaupa yfir, hvernig sem viðrar, sama hve þung umferð er.

Ég var að velta þessu fyrir mér um daginn þegar ég gekk heim, búinn að bíða við gangbraut í góða stund í roki og skítakulda. Það er okkur eðlislægt að vernda börn, þess vegna stoppar fólk fyrir þeim, jafnvel þó börnin séu í fylgd fullorðinna. Einhvern vegin verða öll börn að okkar börnum. En ættum við ekki að beita smá hugarleikfimi á þetta, heilaþvotti. Eigum við ekki að reyna að sjá fólkið í kringum okkur sem börn. Ekki raunveruleg börn, heldur fólk sem á börn sem bíða eftir þeim. Fólk sem á foreldra, maka eða vini sem finnst vænt um þau. Myndi það breyta einhverju ef við reynum að setja fólk í stærra samhengi.

Ég held að með því að setja sig í þær stellingar, rembast við að sjá þetta fyrir sér, gæti maður hugsanlega bætt viðhorf sitt til annarra. Gert sjálfum sér auðveldara með að víkja fyrir þessum, stoppa fyrir öðrum og hleypa hinum framfyrir í röðinni.

Ég tölti úr vinnunni yfir í Nettó um daginn til að kaupa mér skyr, kom að kassa með eina hálfs líters flösku af Egils kristal og fjórar litlar dósir af skyr.is. Það var röð á öllum kössum og flestir með helling af vöru. Ég fór í röð á eftir eldri konu sem var að glugga í Vikuna meðan hún beið eftir að kæmi að sér. Hún leit á mig og sagði, "villtu ekki vera á undan", ég þakkaði og þáði boðið. Var snöggur að borga og seinkaði því för konunnar lítið sem ekkert. Var ósköp þakklátur því maður lendir næstum því aldrei í þessu. Konan var reyndar enn að glugga í Vikuna þegar ég fór, eflaust hefur hún verið að vinna sér inn tíma með því að hleypa mér framfyrir. Líklega lá henni ekkert á, oftast liggur okkur ekkert á.

Kannski er klukkan orðin margt.

Ýmislegt
Athugasemdir

Gyða - 12/11/04 08:24 #

Kolla var einmitt að segja mér frá þessu þegar við röltum í dansskólann um daginn. Greinilegt að þið hafið rætt þetta. "Mamma fólk stoppar aldrei fyrir pabba á gangbrautum nema hann sé með okkur" (þ.e. stelpunum) :-) Mér er þetta enn í fersku minni svo sniðugt að lesa pistilinn. "kannnski er klukkan orðin margt" kannski skv. blogginu þínu er þessi pistill sendur inn 1:53!!! skil þig ekki drengur!!

sirry - 12/11/04 09:05 #

ÉG stoppaði fyrir konu í gær sem var að fara yfir götu hún var ein ætli hún hafi orðið hissa ? Annars var ég að stússast í lánamálun um daginn og var mjög hissa á því hvað stelpan hjá sýslumanninum var rosalega hjálpleg, hef bara því miður ekki kynnst svona áður, enda hrósaði ég henni vel fyrir og sagði henni að hún væri alveg frábær. Það er til gott og hjálpsamt fólk í þjóðfélaginu

Tryggvi R. Jónsson - 12/11/04 10:21 #

Ég rakst á þetta viðhorf þegar ég verslaði nýjan bíl af Heklu 2000. Það var virkilega vont mánudagseintak og þjónustan var fyrir neðan allar hellur. Þangað til einn dag þá var ég með litla frænku mína með fyrir algera tilviljun og þá breyttist viðhorf þeirra til mín varanlega. Vont finnst mér líka þegar fólk sem maður reynir að sýna tillitssemi vantreystir manni t.d. ef maður reynir að búa til pláss fyrir einhvern í umferðinni.

DJ - 12/11/04 14:08 #

Já maðurinn er auðvitað hjarðdýr og því kannski eðlilegt að "allir verndi börn allra". Hef nú ekki leitt hugann að þessu, en þetta virkar frekar jákvætt á mig ef satt er.

Kannski málið sé einfaldara og að nú til dags sé fólk orðið vant því að foreldrar hvorki ali upp börn sín né geri til þess tilraun og þaðan sé þessi árátta komin. Fólk einfaldlega treysti þá ekkert foreldrum til að vernda börnin sín.

Ekki er það nú jafn fallegt, ef þetta stafar svo allt af vantrausti en ekki sameiginlegum, sjálfkrafa og genetískum varnarbúnaði.

Hef grun um að þetta gæti reyndar verið beggja blands og velti þá dálítið á samfélagsgerð hvort um ræðir.

Birgir Baldursson - 12/11/04 14:55 #

Ég sé að ég þarf að fara að næla mér í skvessu og hrúga niður krógum, svo mér fari að farnast betur í lífinu :)

Mig hefur reyndar lengi grunað að ég sé nett hafður útundan, þegar verið er að ráða í spiladjobb, sökum þess að ég þarf ekki fyrir fjölskyldu að sjá. Ég er viss um að um leið og það kæmu kona og barn fengi ég skyndilega inngöngu í „fjölskyldufólksmafíuna“ og tekjurnar af spilamennsku yrðu loks eitthvað sem talandi er um.

skúli - 12/11/04 18:34 #

Hafðu samband Birgir minn ef þig vantar prest.