Í dag sá ég regnboga
Laugardagar eru ósköp formfastir. Ég sef frameftir, er vakinn rétt fyrir tíu þegar Gyða fer með Ingu Maríu í dansinn. Kortér yfir tíu röltum ég og Kolla af stað í dans, tíminn hennar er strax á eftir tímanum hjá Ingu Maríu. Göngutúrinn gekk ágætlega, Kolla datt reyndar og meiddi sig örlítið og ég þurfti að bera hana á háhest síðari hluta leiðarinnar. Held hún hafi verið að svindla dálítið :-)
Á meðan Kolla var í dansinum fórum ég og Inga María í göngutúr meðfram læknum upp að Ölduselsskóla, skoðuðum meðal annars listaverkin á túninu og ræddum aðeins við listamanninn sem var að vinna að stóru verki sem Orkuveita Hafnarfjarðar (eða eitthvað álíka batterí, man ekki hvað hann sagði) var að kaupa. Ég gleymdi að spyrja hann hvað hann heitir, eða þorði því ekki, ætli það sé ekki réttara. Kunni ekki heldur við að taka af honum mynd.
Hádegismatur á Arnarnesi eins og ætíð á laugardögum. Þegar við ókum út nesið sáum við regnboga. Fórum í smá göngutúr út í fjöru og tókum myndir. Við hádegisborðið var að sjálfsögðu rætt um kennaraverkfall, Sólbaksdeiluna og Hollywood megrunarkúrinn! Stebba var heitt í hamsi útaf friðarverðlaunum Nóbels, sem voru víst veitt fyrir trjárækt í þetta skipti.
Áslaug amma hennar Gyðu hélt upp á afmæli, við kíktum þangað og þáðum veitingar og röbbuðum. Ég stoppaði stutt, fór innibolta klukkan fimm. Mættum níu annað skiptið í röð en reyndar voru fjórir sem mætti korteri of seint. Alltaf fínt að spila fótbolta, ég náði að klúðra ótrúlegum fjölda fær, en kom mér þó í færin, svo maður líti á björtu hliðarnar.