Henson - FC Fame
Henson 1 - 5 FC Fame.
Jæja, þá er þetta búið. Með þessu tapi er öruggt að Henson er fallið og sumarið endar á versta veg. Leikurinn fór fram við ágætar aðstæður á Ásvöllum, smá úði og lítið rok.
Jafnræði var í byrjun og liðin sóttu á báða bóga. Ekki var mikið um færi en Oddi átti gott skot af löngu færi sem fór naumlega yfir. Baráttan hjá Henson var fín og við vorum betra liðið ef eitthvað var.
Þegar leið á hálfleikinn tók FC Fame frumkvæði í leiknum, miðjumenn þeirra yfirspiluðu miðjuna hjá okkur hvað eftir annað og leikmenn þeirra fóru alltof áreynslulítið framhjá nokkrum mönnum trekk í trekk. Í lok hálfleiksins kom svo hrikalegur kafli hjá Henson og FC Fame skoraði þrjú mörk á síðustu tíu mínútum hálfleiksins.
Henson reyndi að sækja í seinni hálfleik og átti frumkvæðið í leiknum, náðum þó ekki að skapa nóg af færum. Þar sem við sóttum framar á vellinum opnaðist vörnin nokkuð og FC Fame náði hættulegum skyndisóknum. Alli fiskaði víti eftir ágæta sókn en Axel klúðraði spyrnunni, skaut framhjá vinstra megin.
Aggi skoraði gott mark þegar um fimmtán mínútur voru eftir af leiknum, skaut frá teigshorni í hornið fjær. Henson lagði aukinn þunga í sóknina en náði ekki að bæta við mörkum.
Á sama tíma galopnaðist vörnin og Fame bætti við tveimur mörkum og hefðu hæglega geta skorað fleiri.
Henson þurfti stig í leiknum til að eiga möguleika á að halda sér uppi. Því er ljóst að liðið er fallið og leikur í neðri deild næsta sumar. Það er einnig ljóst að það var ekki leikurinn í kvöld sem réð úrslitum, miklu frekar má horfa á viðureignina við Rögnuna, því við vorum eina liðið í riðlinum sem vann þá ekki. Ef sá leikur hefði unnist væri sætið nokkuð tryggt.
Ég byrjaði útaf í kvöld, kom inná í senterinn í seinni hluta fyrri hálfleiks. Spilaði ekki vel í kvöld, náði aldrei takti við leikinn. Alveg ljóst að ég þarf að drulla mér í betra form fyrir næsta sumar ef ég ætla að gera eitthvað af viti í boltanum.
Jæja, þetta tímabil búið. Nú þarf að huga að því að halda hópnum saman og ná þokkalegri mætingu á æfingar í vetur.