Örvitinn

Sumarbústaður og menningarnótt

Brunuðum úr bænum í gærdag og kíktum í heimsókn til tengdaforeldra minna í sumarbústað í Brekkuskóg rétt hjá Laugarvatni. Áttum rólegan dag, komum við hjá Jóla Fel áður en við fórum og borðuðum hádegismat þegar við mættum. Ég horfði á Liverpool leikinn, skjár 1 næst semsagt í sveitinni. Ég og Gyða röltum aðeins um svæðið í leit að fossi en fundum hann ekki. Borðuðum kvöldmat áður en við brunuðum í bæinn klukkan hálf átta. Kolla vill koma því á framfæri að við fengum ís í bústaðnum, ísbíllinn var á svæðinu.

Ákváðum að fara með stelpurnar í miðbæinn til að leyfa þeim að sjá flugeldasýninguna. Kolla og Inga María voru í fínu fjöri og skemmtu sér vel í tvíburakerrunni.

Rétt fyrir ellefu komum við okkur fyrir á Arnarhóli og biðum eftir rakettunum. Kolla var í miklu stuði og dansaði rokkdans við undirleik Egó sem sungu "þið munuð öll deyja" og fengu djáknann til að spá, okkur þótti þetta skemmtilegt.

Inga María varð frekar hrædd við lætin í sprengjunum og Kolla fór ekki úr fanginu á mér en þær höfðu samt gaman að. Við röltum svo upp Hverfisgötuna og hittum mömmu og pabba á horni Frakkarstígs og Laugavegs, þau höfðu reynt að hringja í okkur á Arnarhóli en það var ekki séns að ná gsm sambandi. Rákumst á Evu frænku og svo Ásmund og Hörpu með Dóru Sóldísi og Ásthildi skömmu síðar, Ásthildur steinsvaf í fangi foreldra sinna.. Stemmingin í bænum var góð og ekki sást ölvun á mjög mörgum þegar við vorum þarna, nokkrir ungir strákar í brekkunni sveifluðu flösku en það var allt. Mér þykir það til fyrirmyndar að selja bjór í plasflöskum í bænum, skil ekki að það eigi að fara að gera veður útaf því.

Bíllinn okkar var við Hallgrímskirkju, við röltum þangað í rólegheitunum, vorum ekkert að flýta okkur þar sem við vissum að umferðin myndi ganga hægt. Þegar við komum að bílnum slökuðum við aðeins á en ókum svo í áttina að Hverfisgötu, vorum enga stund að komast úr bænum. Umferðin frá Hallgrímskirkju að Snorrabraut var alveg stopp.

Stelpurnar fóru ekki í bælið fyrr en klukkan eitt í nótt, sváfu sem betur fer til ellefu í morgun þessar elskur.

Ég tók myndir.

dagbók