Henson - Ufsinn
Henson 1- 3 Ufsinn.
Henson steinlá á Ásvöllum í Hafnafirði í kvöld, eftir fimmtán mínútur var staðan 3-0 fyrir Ufsanum og leikurinn í raun búinn. Ekki gekk vel að ná saman hóp en þegar á hólminn var komið voru 2-3 á bekknum sem er ásættanlegt meðan allir eru heilir, svo var ekki í kvöld.
Leikurinn byrjaði þokkalega hjá Henson, við spiluðum ágætlega á milli manna og jafnræði var með liðum. Á nokkrum mínútum gerðum við alvarleg mistök sem Ufsinn nýtti sér og leikurinn var gott sem búinn. Við misstum boltann trekk í trekk á miðjunni og góðir sóknarmenn Ufsans fóru leikandi létt í gegnum vörnina.
Henson fékk nokkur færi og hefði getað sett mark en Ufsinn var nær því að bæta við marki ef eitthvað var.
Við hófum seinni hálfleik af krafti og eftir nokkra mínútna leik var ég hrikalegur klaufi að klúðra dauðafæri eftir að Aggi hafði leikið glæsilega í gegnum vörn Ufsans. Við vorum meira með boltann í seinni hálfleik og sóttum nokkuð en sköpuðum ekki mörg færi. Í lokin skoraði Alli svo af stutti færi en þá voru bara tvær mínútur eftir af leiknum.
Leikurinn fór prúðmannlega fram og lítið var um brot eða kjaftbrúk. Sérkennilegur dómari leiksins setti nokkurn svip á hann og virtist stundum vera alveg úti á þekju. Ekki er hægt að segja að það hafi hallað á annað liðið, vissulega var dæmd ranglega rangstaða á okkur en það var á báða vegu. Í fyrri hálfleik fékk ég gult spjald fyrir kjaftbrúk, var straujaður niður án þess að dómari dæmdi nokkuð, hrópaði "hann straujar mig niður" eða eitthvað í þá áttina. Næst þegar boltinn fór úr leik skokkaði dómarinn til mín og sagði mér að vera ekki að segja honum hvernig ætti að dæma, hann hefði hugsanlega dæmt ef ég hefði ekki verið að hanga svona mikið í treyjunni á hinum leikmanninum. Þetta var alveg glórulaus fullyrðing hjá dómaranum þar sem ég hafði einfaldlega ekki komið við treyjuna hans og spurði leikmanninn sem stóð við hlið okkar af því, hann sagðist ekki muna eftir því. Fyrir þetta uppskar ég gult spjald. Axel fékk gult spjald fyrir að spyrja dómarann hvort hann betur en hann hvort boltinn hefði farið inn á völlinn þegar Axel tók innkast. Þessi dómari var líka afskaplega upptekinn af því að allt væri á hreinu á hliðarlínunni og stoppaði leikinn í gríð og erg útaf einhverjum tittlingaskít. Furðulegt þegar dómari er í aðalhlutverki í leik sem er prúðmannlega leikinn.
Ég byrjaði leikinn á hægri væng og fór svo í framherjann. Var ekki að gera góða hluti, klúðraði dauðafæri og var oft að reyna erfiða hluti þegar einföld sending hefði dugað. Fékk tak í hægri kálfann í lok fyrri hálfleiks en vegna skorts á skiptimönnum kláraði ég leikinn, tognaði ekki illa en þetta háði mér samt nokkuð.
Lárus meiddist um miðjan fyrri hálfleik og Maggi Eyjólfs fór líka útaf meiddur þannig að fljótt gekk á varamannabekkinn. Maggi stóri er einnig meiddur en spilaði samt mestallan leikinn.
Jæja, svona er þetta, sumarið er ekki að ganga vel hjá Henson. Ufsinn er með gott lið, sterkan sóknarmann, markmann og miðverði. Við töpuðum 3-0 fyrir þeim í fyrra þannig að þeir hafa gott tak á okkur. Eins og í fyrra þurfum við að taka okkur tak í síðustu leikjum ef við ætlum ekki að falla niður um deild.