Henson - FC Kiddi
Henson 2 - 2 FC Kiddi
Leikurinn fór fram á Ásvöllum klukkan hálf átta í gærkvöldi. Veður var gott og aðstæður fínar. Gervigrasið á Ásvöllum er farið að láta á sjá en samt er völlurinn mun betri en helvítis steypan í Laugardalnum.
Henson byrjaði leikinn vel og yfirspilaði FC Kidda fyrstu 20-25 mínútur leiksins. Boltinn gekk mjög vel milli manna og við vorum mjög óheppnir að skora ekki fyrr. Kvikmyndagerðamaðurinn klúðraði dauðafæri eftir mjög góða sókn, ég fékk góð skotfæri sem fóru forgörðum og margar góðar sóknir litu dagsins ljós.
Eftir um 20 mínútur fengum við aukaspyrnu fyrir utan teig hægra megin. Axel gaf fyrir, Kjartan skallaði boltann áfram og Aggi skallaði boltann inn, markvörður Kidda komst í boltann sem lak inn. 1-0 og sanngjörn staða.
Eftir þetta kom þessi klassíska ládeyða sem virðist fylgja því að við komumst yfir og Kiddi tók frumkvæðið í leiknum, óskiljanlegt að láta þetta gerast í raun því fram að þessu höfðu þeir ekkert ógnað en það sem eftir var hálfleiks sóttu þeir meira og sköpuðu usla af og til. Hættulegasta færið fengu þeir þó þegar Höddi gaf beint á fremsta mann þeirra, sem betur fer komust varnarmenn fyrir.
1-0 í hálfleik.
Ég skellti mér á salernið í upphafi seinni hálfleiks og missti af jöfnunarmarkinu. Það lá þó í loftinu þvi eitthvað var að klikka varnarlega á vinstri vængnum hjá okkur þar sem Kiddamenn fjölmenntu. Þetta verður að skoða betur og menn þurfa að tala meira saman.
Nú sótti Henson meira og Axel kom okkur yfir þegar um 10 mínútur voru liðnar af hálfleiknum, Maggi stóri gaf góðan bolta inn fyrir vörnina, Axel, sem spilar sem afastasti maður, var kominn einn og gegn og var sallarólegur þegar hann lagði boltann í markið.
Eftir þetta var leikurinn í jafnvægi, bæði lið sóttu og sköpuðu sér færi. Jöfnunarmark FC Kidda var af ódýrari gerðinni. Lárus, sem spilaði miðvörð, gaf boltann beint á fremsta mann FC Kidda sem þakkaði pent fyrir sig og kláraði dæmið. Agalega ódýrt.
Það sem eftir var leiks sóttu liðin á báða bóga, við fengum nokkur mjög góð færi, þar með talið undirritaður sem komst einn í gegn eftir að Alli hafði brotið á einum leikmanni FC Kidda en dómarinn kaus að hunsa það. Ég hafði í raun nægan tíma en ætlaði að reyna að setja boltann yfir markvörðinn með vinstri og klúðraði því að sjálfsögðu. Alveg glórulaust hjá mér, þarna hefði ég átt að fara nær og leggja tuðruna framhjá markverðinum. Skelfilegt.
FC Kiddi fékk líka færi í lokin og hefðu getað stolið sigrinum, við fengum þó síðasta færið, Maggi lék upp vinstra megin, lagði á mig fyrir framan teiginn, ég lagði boltann á Agga sem fékk krampa og klúðraði góðu færi.
Sumir leikmenn FC Kidda voru einstaklega leiðinlegir á velli í gær og voru með óþarfa stæla. Það má alltaf búast við umdeildum dómum í svona leik og bæði lið tuðuðu óþarflega mikið í dómara, FC Kiddi þó meira að mínu mati. Haffi fyrrum stjörnumaður fær svo sérstaka viðurkenningu fyrir leiðindi á velli, ég held ég hafi ekki spilað á móti leiðinlegri leikmanni í ár. Í hvert sinn sem eitthvað gerðist var hann mættur á svæðið til að koma af stað leiðindum. Í seinni hálfleik var ég tvisvar straujaður aftan frá og uppskar svívirðingar og stæla frá Haffa og ásakanir um leikaraskap. Svo það sé alveg á hreinu, þá læt ég mig ekki detta í fótbolta og fer ekki fram á brot nema þegar brotið er á mér. Það er gjörsamlega óþolandi þegar svona leiðindapésar geta ekki spilað knattspyrnuleik án þess að rífast og vera með stæla. Þegar hann kom upp að mér og rak brjóstkassann í mig til að ógna mér veit ég ekki alveg hvað hann var að spá.
Enn og aftur nær Henson ekki að landa sigri þrátt fyrir að vera betra liðið. Menn verða að nýta færin og það gengur ekki að færa andstæðingum mark á silfurfati. Leikurinn var samt vel spilaður á köflum og boltinn gekk oft mjög vel á milli manna. FC Kiddi er með ágætt lið, ekkert sérlega vel spilandi - mikið af löngum spyrnum á framherja, en nokkrir leikmenn hjá þeim voru góðir á bolta. Litli gaurinn, man ekki númer hvað, var þeirra besti maður og hélt bolta vel og ógnaði lang mest.
Flestir eru þetta vafalítið ágætir strákar og ekkert vesen var á meirihluta þeirra en stælarnir og leiðindin í nokkrum leikmönnum gera það að verkum að þetta er með leiðinlegri liðum sem ég hef mætt á velli. Ekki virðist mórallinn hjá þeim vera mjög góður því þeir voru farnir að rífast innbyrðis og virðast margir einfaldlega ekki hafa gaman af því að spila fótbolta. Þá er betur heima setið en af stað farið!
Ég byrjaði leikinn á miðjunni og var að gera ágætis hluti sóknarlega en ekkert sérstaka varnarlega. Færði mig framar á völlinn um miðjan fyrri hálfleik þegar Maggi kom inn á. Er ekki í nógu góðu formi en virðist vera orðinn heill í kálfa, finn reyndar örlítið fyrir honum í dag en ég held samt að ég sé orðinn góður. Spilaði ágætlega en fór samt illa með nokkur færi, sérstaklega þegar ég komst einn í gegn, hefði mátt halda haus, fara með boltann nær og klára færið.