Örvitinn

Helgarskýrslan

Þetta var hin ágætasta helgi. Fórum í hádegismat hjá tengdó í gær, sátum úti í garði í góða veðriðinu og borðuðum grillaða hamborgara. Veðurblíðan var slík að Gyða brann á bringunni. Inga María og Kolla léku sér við barnabarn nágrannanna.

Skelltum okkur svo í bíó að sjá Shrek 2. Gærkvöldið var rólegt, grilluðum nautakjöt og kjúkling. Stelpurnar fengu að borða í stofunni og horfðu á Shrek í sjónvarpinu, Inga María sofnaði í fanginu mínu áður en myndin var búin en Kolla kláraði að glápa uppi í stofu.

Í dag tókum við til hendinni í garðinum, ég sló grasið [fyrir - eftir] og Gyða rótaði í beðunum. Skutluðum svo nokkrum pokum af garðaúrgangi í Sorpu og fórum svo í mat til mömmu og pabba, borðuðum kjúklingasalat úti í garði hjá þeim og fengum "nýjar" fréttir af fjölskyldumálum. Sumar gleðilegar en aðrar frekar daprar. Lánuðum mömmu og pabba Toskana bókina og kort af Rimini enda eru þau að fara til Rimini næsta fimmtudag.

Afskaplega róleg og fín helgi. Á morgun er svo vinna hjá okkur báðum.

dagbók