Örvitinn

Strandadagur

Inga María vaknaði klukkan átta og kom yfir til okkar, Kolla kom skömmu seinna. Við skelltum okkur á ströndina og keyptum okkur reit næstu fjóra daga. Stefnum reyndar á að fara í skemmtigarða og þess háttar næstu daga en það er ágætur kostur að geta skotist út á strönd, svo erum líka búin að missa allt peningaskyn og eyðum 43 evrum án þess að hugsa um það. Leigðum reit skammt frá sjónum, tveir bekkir og sólskýli.

Vorum á ströndinni í um tvo tíma, stelpurnar busluðu í sjónum og bjuggu til sandbyggingar. Sóttu sjó í fötu og dunduðu sér. Um hádegi voru allir orðnir svangir og þreyttir og þá röltum við aftur á hótelið. Borðuðum brauð og jógúrt og slökuðum á eftir mat. Stelpurnar léku sér ágætlega, allavega til að byrja með. Um klukkan fjögur fannst okkur hjónunum kominn tími til að gera eitthvað, hálf kjánalegt að eyða fríinu í að gera ekki neitt á hótelherbergi, en það var ekki auðvelt að ná stúlkunum út. Inga María var búin að ákvaða að renna sér í einhverri rennibraut, Kolla var að horfa á mynd í sjónvarpinu en Áróra samþykkti reyndar að koma á ströndina. Ég fór í að reyna að sannfæra Kollu um að koma með okkur út, tókst verkið að lokum – tja, réttara sagt, myndinni lauk. En við röltum semsagt aftur út á strönd rúmlega fjögur og vorum þar til að verða sjö. Mjög þægilegt að vera á ströndinni seinni partinn, hitinn þægilegri og sólinn lægra á lofti. Stelpurnar léku sér mjög vel þó Inga María væri reyndar vægast sagt ansi stríðin. Gyða vill meina að ástæða þess sé að hún hafi ekki þroska til að taka þátt í leikjunum með stelpunum og stríði því til að fá athygli.

Stelpurnar fengu sér að borða á McDonalds meðan ég fór í kjörbúðina. Ég ætlaði mér ekki að borða amerískan skyndibita í þessari ferð. Kjörbúðin er áhugaverð, er á tveimur hæðum og maður þarf að fara upp til að finna ólívuolíu og bleyjur. Stelpurnar voru allar ánægðar með sitt, sérstaklega þær minni sem fengu dúkkur með barnaboxunum og gátu svo leikið sér í leiktæki McDonalds.

Ég hitaði Ravioli með ostafyllingu sem var sæmilegt, klúðraði því samt eitthvað. Fengum okkur smá kjöt með parmesan og ólívuolí í forrétt og drukkum svo hvítvín. Eftir að hafa svæft stelpurnar gláptum við þrjú eldri á þátt um Spiderman 2 á MTV, ekki eigum við mikið eftir að sjá af þeirri mynd en því verður ekki neitað að Sam Raimi er töffari, nördalegur, en þannig eru náttúrulega allir alvöru töffarar. Ég er svo frægur að hafa vitað hver Sam Raimi var fyrir fjölmörgum árum þegar einu myndirnar sem hann hafði gert voru Evil Dead 1 og 2, ójá.

Fáeinar myndir

Toskana 2004 prívat