Afslöppun
Bjórflugukenningin beið hnekki í dag, ég er með nokkur bit á báðum fótum. Í gærkvöldi var ég nefnilega berfættur í sandölunum við kvöldmatarborðið. Ástæða þess að ég hef sloppið við bit hingað til er semsagt ekki sú að ég er alltaf að drekka bjór heldur sú að ég er alltaf í síðbuxum og sokkum. Fatnaður er besta vörnin gegn sólbruna og mýbiti.
Stebbi, Margrét og Nathan fóru heim í dag. Ásmundur og Gunna skutluðu þeim á flugvöllinn í Písa þar sem vélin þeirra fór í loftið klukkan tvö. Við vorum eftir í húsinu að slaka á, lesa og fórum í laugina seinni partinn. Skelltum í þvottavél þegar við fórum í laugina, en hér er ein sameiginleg þvottavél fyrir allar íbúðir.
Áróra varð frekar snemma úr leik í laugarferðinni, í annað sinn í nokkrum dögum hoppaði hún á vespu sem var að drukkna í lauginni og var stungin, hún flúði inn að horfa á sjónvarpið. Við hin vorum áfram, stelpurnar léku sér en foreldrarnir lásu á bakkanum. Munar miklu að hafa barnalaug þar sem stelpurnar geta dundað sér sjálfar án þess að fullorðinn haldi í þær, við erum þó nálægt og fylgjumst vel með.
Komum inn aftur um fimm, stelpurnar fóru að dunda sér og horfa á teiknimyndir í tölvunni. Sóttum þvottinn okkar seint og síðar meir, komum þá að pari úr öðru húsi sem var að reyna að koma vélinni í gang, Gyða hafði einmitt klikkað á því líka í fyrstu tilraun. Hengdum þvottinn á hengirúmið fyrir framan hús.
Elduðum kjúklingabringur með skinku og parmesan, bárum fram með kúskús, salati og jógúrtsósu. Ég steikti kjúklingabringur, kryddaði með salti og pipar. Gyða setti skinkusneið ofan á hverja bringu og stráði svo parmesan yfir. Þessu var skellt í ofn í 10-12 mínútur. Afskaplega vel heppnað.
Eftir mat svæfðum við stelpurnar og spiluðum Liverpool til miðnættis. Fyrir svefninn náðum ég og tengdafaðir minn að eiga alvega einstaklega leiðinlega og þreytta trúmálaumræðu þar sem hann stanglaðist á því að trúleysi mitt væri trú og fabúleraði svo um það hvað trú væri. Sú skilgreining stenst enga rýni og byggir á mínu hógværa mati á viljandi misskilningi á málstað vantrúaðra. Að hans mati eru þeir einir trúaðir sem ekki eru vissir í sinni trú! A.m.k. skyldi ég hann þannig.
Ég átti ekki auðvelt með að sofna, var mikið að velta fyrir mér afstæðishugtakinu, hvort það sé í raun bara takmörkun á tungumálinu sem veldur því að fólk er troða því hugtaki inn í umræðuna. Hugtak eins og fegurð er í raun ekki afstætt heldur er fólk að misskilja hugtakið og yfirfæra eiginleika frá þeim sem skynjar yfir á það sem er skynjað. Málverkið er ekki fagurt heldur finnst þeim sem horfir það vera fagurt. Fegurð er ekki eiginleiki málverksins heldur skynjunar þess sem horfir á málverkið. Málverk verður ekki fagurt þó allir sem horfa á það segi að það sé fallegt því í raun þarf ekki nema einn einstakling til að halda öðru fram svo sú kenning teljist röng. Aftur á móti er alveg hægt að segja að málverk höfði til flestra og svo framvegis, sé jafnvel merkilegt, en allt er þetta vísun til skynjunar. Skynjun er ekki afstæð, hún er bara mismunandi og það er ekkert afstætt við það að fólk hafi mismunandi sýn á hlutina. Þetta er efni í sér pistil.
Sigurðu Már - 17/11/04 00:25 #
Sæll Matthías.
Hef haft gaman af blogginu þínu (deili með þér dálæti á ensku knattspyrnuliði) og rakst á þessa fróðlegu ferðalýsingu þína frá Toscana um daginn. Ég hafði sérstaklega gaman af þessu af því að ég var búsettur einmitt í Siena um misseraskeið fyrir um áratug. En að athyglisverðum pælingum þínum um afstæði. Mér sýnist þú vera að segja að fyrirbæri (og athafnir)séu ekki gildishlaðin. Þetta hefur verið kallað afstæðishyggja (í t.d. listfræði/fagurfræði/siðfræði). Raungreinaleg afstæðishyggja er annað en þó af sama meiði.
Ef við heimfærum þína rökgreiningu yfir á siðferði þá væri hægt að segja að ekki væri til góð siðleg breytni. Siðferði morðingjans er þannig engu verra en hins sem drepur ekki. Í þessu dæmi erum við að tala um gott siðferði en það virðist eins vera hægt að skipta út hugtakinu "gott" fyrir "fagurt".
Þá má vel hugsa sér skynjun sem afstæða - það t.d. að "litblindur" maður skynji ekkert "rangari" mynd en "sá heilbrigði".
Með þessum rökum virðist öll skynjun og verðmætamat manna á öllum hlutum og gjörðum vera afstætt. Það finnst mér vera leiðinleg niðurstaða.
Með kveðju, -smh
Matti Á. - 17/11/04 00:47 #
Sæll Sigurður, takk fyrir kommentið.
Ég er afar lítið hrifinn af afstæðishyggju :-)
Það sem ég var að pæla í, örlítið hífaður fyrir svefninn þetta kvöld í Toskana, var hvort þeir eiginleikar sem oftast er talað um í sambandi við afstæði, eins og t.d. fegurð séu raunverulegir. Þegar ég segi "þetta er fallegt" er ég í raun að segja "mér finnst þetta fallegt". Þetta lýsir skoðun minni og tilfinningu frekar en því sem um er fjallað. Til að lýsa fyrirbærinu þyrfti ég að tala um eiginleika þess og þá væri ég kominn í allt aðra hluti.
Það er rétt að þetta væri vont að flytja þessi rök mín yfir á siðferðileg efni, jafnvel háskalegt. Enda tel ég að þegar við segjum "þetta er gott" séum við í raun að segja "þetta hefur jákvæðar afleiðingar" þar sem jákvæðar afleiðingar er allt það sem kemur okkur sem samfélagi vel. Ég tel því að til sé grundvöllur fyrir siðferði sem byggist á samfélagi þó ég telji trúarbrögð afar óheppileg að því marki og hafa virkað illa. Þyrfti að skrifa eitthvað um þetta eða að minnsta kosti pæla betur í þessu :-)
Siena er fögur borg (eða réttara sagt miðbærinn sem ég sá) og Toskana yndislegur staður. Það er ekkert afstætt við það :-)