Gosasafnið
Áróra fór með ömmu sinni og afa í siglingu. Ég og Gyða ákváðum að finna eitthvað áhugavert fyrir Kollu og Ingu Maríu að sjá. Í bókinni sem við styðjumst við er minnst á Gosasafn í bænum Collodi sem er skammt frá Lucca og því ekki langt í burtu þannig að við ákváðum að kíkja þangað.
Ókum af stað til Lucca og hófumst þar handa við að villast nokkrum sinnum. Ítalir merkja vegina sína ágætlega en þó er einn annmarki þar á, þeir eru afskaplega gjarnir á að sleppa merkingum nákvæmlega þar sem valkostirnir eru flestir. Þannig ekur maður framhjá skylti sem upplýsir að í þessa átt sé ákveðinn staður, skömmu síðar kemur maður að gatnamótum með fjórum valmöguleikum og enginn þeirra er merktur. Við komumst á leiðarenda að lokum og skoðuðum þetta blessaða safn.
Ekki var það sérlega merkilegt en stelpurnar skemmtu sér vel. Safnið samanstendur af garði með stórum og litlum styttum af ýmsum fígúrum sem tengjast sögunni af Gosa. Við byrjuðum á því að skoða söguna af Gosa í litlum kofa, þurftum að borga evru á haus fyrir að kíkja inn í hann. Þvínæst fengum við okkur samokur áður en við héldum áfram. Göngutúrinn um garðinn tók kannski hálftíma, mér þóttu stóru stykkin merkilegust, hvalurinn og skipið. Eins og ég minntist á skemmtu stelpurnar sér vel og það er fyrir mestu. Í lok göngutúrs kíktum við á brúðuleikhús á ítölsku og að því loknu léku stelpurnar sér í rennibrautinni meðan foreldrar sátu á bekk. Í því kom hópur japanskra skólastelpna (nú þurfa menn að hætta að fantasera, þetta er ferðasaga) og skoðaði svæðið. Þær höfðu afskaplega mikinn áhuga á Kollu og Ingu Maríu og stilltu sér upp hjá þeim og tóku myndir. Ég hef svosem alltaf vitað að stelpurnar eru sætar, enda líkar föður sínum, en það er ágætt að fá alþjóðlega staðfestingu á þessu. Kolla og Inga María skemmtu sér vel í fyrirsætuhlutverkinu.
Heimleiðin gekk afskaplega illa, Inga María svaf reyndar en Kolla lét öllum illum látum og vældi alla leiðina heim að hún vildi fá Sprite. Stundum er það alveg afskaplega ömurleg upplifun að aka um í útlöndum.
Um kvöldið fórum við út að borða á veitingastað í um fimm mínútna aksturfjarlægð frá húsinu. Rétt í þann mund sem við vorum að leggja af stað komu vinir húsráðan í hlað til að fá ráðleggingar hjá okkur fyrir væntanlega Íslandsferð þeirra, en þau eru að fara til Íslands 22. júlí og ætla að aka hringinn á viku. Við ræddum aðeins við þau, en vorum samt frekar gáttuð á húsráðana að stefna vinum sínum til okkar klukkan átta á föstudagskvöldi án þess að minnast á það við okkur.
Veitingastaðaferðin gekk vægast sagt illa, stelpurnar og ég þreytt og pirruð, fólk að panta mat eins og verstu útlendingar og allt óskaplega misheppnað eitthvað. Fórum á undan heim með stelpurnar í bælið. Hófumst svo handa við að pakka og taka til.