Örvitinn

Flórens

Stilltum vekjaraklukkuna á sjö og vöknuðum um leið og hún hringdi. Fórum á fætur og biðum eftir ferðafélögunum. Eitthvað lét Stefán bíða eftir sér, svaf lengi og þurfti svo að þrífa sig hátt og lágt. Klukkan var alveg að verða átta þegar við loks fórum af stað til Flórenz, stelpurnar voru vaknaðar en það gerði ekkert til, þær voru ekkert ósáttar við að sjá á eftir okkur. Vorum búin að tala við þær kvöldið áður og höfðum stefnt á að fara áður en þær vöknuðu.

Ferðin til Flórenz gekk vel, ókum þetta á einum og hálfum tíma. Höfðum ætlað að aka á lestarstöð í útjaðri Flórenz og taka lestina í miðbæinn en enduðum á því að leggja í 2km fjarlægt frá endastöðinni. Gengum þangað í rólegheitunum, stoppuðum í bakaríi og gripum okkur smotterí í gogginn.

Þegar við komum niður í bæ röltum við eftir leiðbeinginum úr bókinni okkar, Tuscany og Umbria úr lonely planet seríunni. Gönguleiðin var um 2.2km og lá meðal annars fram hjá Dómkirkjunni. Þar fórum við inn, fyrst í kirkjuna og svo upp í hvolfþakið. Gangan upp í hvolfþakið var hressandi en Stefán var ansi þreyttur á toppnum. Ég svitnaði vel en var annars í ágætum málum. Nathan fór ekki alla leið upp enda lofthræddur, eins og Gyða sem þó fór alla leið en passaði sig á því að fara ekkert út að handriðinu. Þegar við komum upp var það fyrsta sem mætti okkur íslendingur sem við ræddum reyndar ekkert við, hann hvatti okkur til að labba hringinn, en ekki hvað, allstaðar rekst maður á landann. Útsýnið af toppnum er magnað og ég tók ótal myndir. Ferðin niður var auðveldari og ég var nokkuð snöggur. Fór á eftir Margréti og Gyðu en á undan Stebba. Tók nokkrar myndir á niðurleið líka, flestar afskaplega listrænar (les: lélegar).

Eftir Dómkirkjuna fórum við að fá okkur að borða, í bókinni góðu er meðal annars mælt með staðnum Caffé Concerto Paszkowski við lýðveldistorgið (piazza della Repubblica). Þar borðuðum við afskaplega góðan mat og drukkum með gott og dýrt hvítvín, Cervaro della sala 2000, 45 evrur takk fyrir. Allir fengu sér að smakka og vorum við sammmála um að þetta væri sérlega gott hvítvín. Ég fékk mér saltað nautakjöt með parmesan osti í forrétt og tagliane með trufflusveppasósu í aðalrétt. Frábærlega vel heppnuð máltíð.

Héldum göngunni áfram eftir mat, strákarnir og Gyða fengu sér ís en ég og Margrét létum það eiga sig. Ég er búinn að ákveða að fara sparlega í ísinn í ferðinni, það er miklu auðveldara að sleppa ísnum en bjórnum.

Skoðuðum ýmislegt fleira í ferðinni, ráðhúsið, fyrrum bústað Medici fjölskyldunnar og skrúðgarð þeirra svo eitthvað sé nefnt. Í síðari hluta ferðarinnar fóru krakkarnir á kaffihús rétt við Ponte Vecchio en ég laumaði mér á internetkaffi og kíkti á fréttir af netinu. Sá meðal annars að Steven Gerrard var búinn að lýsa því yfir að hann ætlaði ekki að yfirgefa Liverpool, mér til mikillar ánægju. Skömm að maður skuli frétta þetta tveimur til þremur dögum eftir að það gerist, hvernig stendur á því að enginn sendir mér SMS með svona fréttum! Ég var hálftíma á netinu, rölti svo og fann ferðafélagana ennþá á kaffihúsinu. Röltum aðeins meira, skoðuðum Pitti höllina, fyrrum hýbíli medici fjölskyldunnar og boboli garðinn garðinn.

Tókum að lokum leigubíl aftur að bílnum okkar. Vorum nokkurn tíma að finna leigubíl sem tekur fimm farþega, vorum búin að ákveða að taka tvo þegar Stebbi sá Fiat bíl sem rúmar fimm. Vorum einmitt búin að vera að furða okkur á því hversu ljótir þessir bílar væru en hættum alveg að tala illa um þá eftir að hafa fundið þennan leigubíl. Leigubíllinn skilaði okkur hratt og vel að bílnum okkar. Ferðin til baka gekk vel, frekar þung umferð út úr Flórenz en þegar komið var upp á hraðbraut gekk umferðin greiðlega. Vorum rétt rúman klukkutíma á heimleiðinni, komum við í stórmarkaðnum í Massarossa klukkan hálf átta og versluðum í matinn.

Gyða eldaði pastagrænmetissúpuna sína í kvöldmatinn og heppnaðist hún vel eins og ætíð.

Tékkar og Grikkir mættust á EM í kvöld, við horfðum spenntir og héldum allir með Tékkum. Þeir voru mun sterkari í leiknum en tókst ekki að skora, Grikkir eru grófir og leiðinlegir, láta sig detta og toga í treyjur eins og þeim sé borgað fyrir það. Enduðu svo á því að stela sigri í framlengingu, dauði og djöfull maður, þetta verður leiðinlegur úrslitaleikur. Annaðhvort tekst Grikkjum að hanga á 0-0 jafntefli og leikurinn fer í framlengingu og vítaspyrnukeppni eða Portúgalar komast yfir og vinna 5-0. Ég veðjaði á Tékka og vinn ekki, þannig verður það að vera.

Allar myndirnar

Toskana 2004 prívat