Hádegismatur og sund
Eyddum deginum í sundlauginni að mestu leyti, kíktum í hádegismat á veitingastað spölkorn frá húsinu.
Inga María og Kolla sváfu frameftir, vöknuðu klukkan níu. Við fórum fram og gáfum þeim morgunmat, kíktum í moggann sem Stebbi og Margrét tóku með sér. Næsta klukkutímann fór fólki að tínast fram. Gyða og Gunna röltu á veitingastaðinn sem er í næsta húsið við okkur og pöntuðu borð í klukkan eitt. Við ákvaðum að skella okkur í sund og fórum í laugina rétt rúmlega ellefu. Vatnið var reyndar ansi kalt en sum okkar létu sig hafa það og busluðum. Vorum í lauginni til korter yfir tólf, fórum þá að hafa okkur til fyrir hádegismatinn.
Hádegismaturinn var hálfgert ævintýri. Staðurinn er eins og áður kom fram í næsta húsið við okkur, garðarnir eru samliggjandi en veggin á milli þannig að ekkert sést nema maður teigi sig fyrir endann eða gægist yfir. Það tekur um fimm mínútur að rölta meðfram veginum því staðurinn er í næstu innkeyrslu. Þetta var ansi stór staður og fullur af heimamönnum, ég er nokkuð viss um að við vorum einu útlendingarnir á staðnum þetta sunnudagshádegi. Stúlkan sem þjónaði til borðs talaði ágæta ensku sem er frekar fágætt á þessum slóðum. Við ákváðum að fá okkur sitt lítið af hverju. Í forrétt (antipasti) var bruschetta (brauð með tómat, olíu og basil), brauð með kæfu, djúpsteikt pasta (held ég), kjötsneiðar (parma skinka, salami og eitthvað reykt kjöt). Þvínæst komu milliréttir, fengum ravioli með kjötfyllingu, núðlur með kjötsósu, súpu með baunum og brauði, svepparisotto. Í aðalrétt var svo allskonar kjöt, meðal annars kjúklingur, kanína og ýmislegt fleira. Í eftirrétt fengum við ís og köku. Með þessu drukkum við tvær flöskur af rauðvíni úr héraðinu, vatn og og sódavatn. Reikningurinn fyrir 10 manns var 120 evrur! Eini galllinn við þetta var hitinn sem var óbærilegur á tímabili. Inga María og Kolla áttu dálítið erfitt með að vera þægar og við þurftum að rölta með þær út nokkrum sinnum. Þetta var náttúrulega ansi langur hádegismatur og þær voru orðnar ansi þreyttar.
Eftir mat röltum við aftur í húsið og slökuðum á í smá stund. Ætluðum að setja DVD mynd af stað í ferðavélinni fyrir stelpurnar en komumst að því að klóin passaði ekki í neina innstungu í húsinu. Þetta er sama tegund af kló, öll önnur tæki sem við erum með passa, en klóin á ferðavélinni er aðeins þykkari. Náðum að lokum að tengja hana inni í eldhúsi og getum því hlaðið rafhlöðuna þar.
Ásmundur og Gunna skelltu sér í bíltúr en við hin fórum aftur í sund. Laugin var búin að hitna nokkuð og stelpurnar var afskalega duglegar við að hoppa út í, svo duglegar að við vorum eiginlega búin að fá alveg nóg af. Aftur og aftur og aftur var hoppað út í, farið upp á bakka og hoppað út í. Ásmunur og Guðrún komu færandi hendi úr bíltúrnum, versluðu meðal annars allskonar sundlaugardót, báta og litla uppblásna laug til að hafa í garðinum. Einnig versluðu þau kol og við grilluðum hamborgara í kvöldmatinn. Ég hef ekki grillað á kolagrilli í langan tíma en þetta heppnaðist ágætlega. Ég borðaði fyrir framan sjónvarpið og horfði á mína menn, Tékka, gjörsigra Dani á EM. Baros skoraði tvö frábær mörk og er greinilega að slá í gegn á mótinu. Allir leikir á fjórðungsúrslitum EM fóru eins og ég hefði kosið og því er alveg ljóst að mínu hógværa mati að Tékkar munu landa titlinum í þetta sinn (post hoc ergo procter hoc).