Ferðin út
Fýrsti dagur ferðarinnar, ferðin út, aksturinn til Montecatini Terme.
Fórum á fætur klukkan tíu mínútur í þrjú um nóttina, drifum okkur af stað en samt ekki jafn hratt og við höfðum ráðgert. Ætluðum að vera lögð af stað út á flugvöll klukkan hálf fjögur en klukkuna vantaði fimmtán mínútur í fjögur þegar við lögðum loks af stað. Vélin átti að fara í loftið klukkan 05:05 þannig að við vorum orðin frekar stressuð. Keflavíkurvegurinn var ekinn á 130 og við mættum á Leifsstöð 04:15. Náðum að tékka okkur tímanlega inn og þurftum ekkert að stressa okkur á flugvellinum. Ég fór og keypti 512MB minniskort fyrir myndavélina á 9.900.- kr. Fínn díll.
Vorum komin út í vél en ekki í loftið um 05:05, stelpurnar voru hressar og kátar, ekki að sjá á þeim að þær hefðu vaknað á ókristilegum tíma. Flugið gekk ágætlega, þær voru rólegar fyrstu tvo tímana, en seinni hlutann þurfti Gyða að hafa töluvert fyrir þeim. Af hverju bara Gyða? Jú, ég var steinsofandi á þeim tíma. Rétt lokaði augunum, að mér fannst, en svaf í raun í tvær klukkustundir. Gyða var frekar fúl en vissi líka að ég var fara að keyra síðar um daginn.
Steikjandi hiti mætti okkur þegar við stigum út úr vélinni á Forlí flugvelli. Það var ógurlegur léttir að ganga inn í flugvallarbygginguna. Þar stoppuðum við stutt, sóttum töskur og fórum svo og fengum bílaleigubílinn. Ég var fyrstur að Hertz skrifstofunni, ef skrifstofu má kalla, á eftir mér myndaðist þokkalegasta röð. Við fengum bílaleigubílinn, Ford Focus Station, 1.8 dísel. Ágætis bíll, hentar okkur vel – allur farangur komst fyrir.
Ókum af stað frá flugvellinum og lentum strax í smá bobba, vorum ekki viss um í hvora áttina við ættum að aka. Ókum inn í Forlí og vorum gjörsamlega áttavillt, dæmigert samtal okkar hjóna hljómaði eitthvað á þessa leið, “Hvort á ég að fara til hægri eða vinstri”, “ég sé það ekki, eigum við að velja veginn til Bologna,”, “hvernig á ég að vita það”. Völdum þó rétt og fundum leið 67 frá Forlí til Flórenz. Þessi leið liggur yfir fjöllin í gegnum nokkra smábæði. Fyrri hluta leiðarinn er vegurinn beinn og greiður, ein akrein í hvora átt, minnir á þjóðveginn á Íslandi. Síðari hluta leiðarinnar verður vegurinn aftur á móti kræklóttur og seinfarinn, 180° beygur á hverju horni! Við stoppuðum á veitingastað á fyrri hluta leiðar, fórum inn og fengum okkur pizzur að borða. Það varð strax ljóst að við myndum ekki komast langt á enskunni í þessari ferð þannig að ítölskufrasarnir ásamt bendingum voru æfðir. Pizza með pepperoni (salami) og pizza með sveppum skilaði sér og var prýðisgott.
Kolla varð bílveik skömmu eftir matinn. Kræklóttir vegir höfðu vafalítið töluvert með það að gera. Hún ældi einu sinni og við þurftum að stoppa aftur síðar þó hún hafi ekki ælt þá. Stoppuðum í smábæ og komum við í matvöruverslun, keyptum drykki og ís. Kolla hresstist töluvert við það.
Héldum áfram för okkar og nálguðumst Flórenz óðfluga. Fórum að leita að leiðinni að hrauðbraut A11 og fundum þrátt fyrir að samtalið frá Forzlí væru endurtekið nokkrum sinnum. Þegar komið var á hraðbrautina gekk þetta nokkuð vel. Leiðbeiningarnar frá Autoroute Europe komu sér þar vel, það passaði upp á meter hversu langt átti að keyra þar til maður tók frárein og því þurfti maður lítið að stressa sig, við gerðum það samt nokkrum sinnum.
Þegar við komum í Montecatini Terme fórum við að hafa augun hjá okkur til að leita að hótelinu. Það vildi svo skemmtilega til að hótelið var við götuna sem við ókum inn bæinn þannig að við fundum það án nokkurrar fyrirhafnar. Smá vandamál var með bílastæði en ég gat að lokum lagt á stæði í um 100 metra fjarlegð en þurfti reyndar að borga á um tveggja tíma fresti, eflaust borguðum við svona 10 evru fyrir bílastæðið þessa tvo daga. Allt stóðst varðandi bókanir og við komum okkur fyrir í ágætu herbergi. Vorum með hjónarúm og tvö aukarúm. Settum annað upp að hjónarúminu og vorum því í raun með þrefalt rúm. Kolla og Inga María sváfu svo í því með okkur en Áróra svaf í hinu rúminu.
Við röltum aðeins um bæinn og skoðuðum, leituðum að veitingastað, enduðum á litlum casual stað rétt hjá hótelinu. Pöntuðum spagettí carbonara handa Ingu Maríu og Kollu, spagettí með sjávarfangi handa Gyðu, spagettí með lax og rjóma handa Áróru og Gnocchi með osti handa mér. Ágætur matur og allir borðuðu vel. Er við sátum og borðuðum kom par um fimmtugt (giska ég) inn og settist við borð nálægt okkur. Kolla og Inga María voru búnar að borða og farnar að hegða sér ósæmilega, ég reyndi að segja þeim að setjast með misgóðum árangri. Eftir smá stund spurði maðurinn Kollu, “viltu ekki setjast hjá okkur?” Höfðum við þá rambað inn á sama veitingastað og íslensk hjón í smábænum Montecatini Terme í Toskana á Ítalíu. Þau voru í ferð með kór frá Dalvík og gisti hópurinn í hótelinu á móti okkur. Við spjölluðum aðeins við þau áður en við fórum.
Skelltum okkur aftur á hótel eftir mat, stelpurnar voru þreyttar eftir langar dag og ég vildi fara að sjá landsleik Englands og Portúgal á EM. Horfði á leikinn á hótelherbergi með fjórum sofandi stelpum. Frábær leikur sem endaði nákvæmlega eins og ég vildi, ég hef engar taugar til enska landsliðsins, Liverpool mennirnir þar virðast á þessari stundu ekki ætlar sér að verða Liverpool leikmenn áfram og þá má fjandinn eiga þá. Þessi dagur endaði því frábærlega þegar markvörður Portúgal skoraði úr úrslitavítinu .