Örvitinn

Melsted Utd - Henson

Melsted 4 - 1 Henson.

Bikarleikur sem fór fram í rjómablíðu í laugardalnum klukkan níu í kvöld. Fín mæting hjá Henson, fimmtán á leikskrá.

Leikurinn var í nokkru jafnvægi til að byrja með, Melsted voru þó ívið sterkari og gekk betur að halda boltanum. Þeir fengu úrvals færi eftir um tíu mínútna leik þegar sóknarmaður komst einn í gegn en Höddi varði vel. Sóknarmaðurinn var reyndar kolrangstæður í þessu tilviki en slakur dómari leiksins lét það fara fram hjá sér. Á átjándu mínútu lék leikmaður Melsted upp vinstri kantinn, sólaði Einar og Viffa og gaf boltann fyrir mark þar sem leikmaður þeirra setti hann inn með brjóstkassa af stuttu færi. Þetta var afskaplega slakur varnarleikur af okkar hálfu, engin ástæða til að leyfa þessum gaur að vaða svona í gegn - en vel gert hjá honum.

Það sem eftir lifði hálfleiks var Henson mun meira með boltann en skapaði sér ekki góð færi. Kjartan átti fína fyrirgjöf sem Oddi var nálægt því að ná og eitthvað var um hálf færi. Þegar stutt var eftir af hálfleiknum dæmdi dómarinn aukaspyrnu á Henson um 40 metra frá marki. Enn hef ég ekki hugmynd á hvað hann var að dæma, þetta var langt frá boltanum, hugsanlega var eitthvað klafs í gangi... ég veit það ekki. Leikmaður Melsted skaut á markið af 40 metrum, þar sem sól var lágt á lofti sá Höddi boltann illa og hann endaði í markinu. Í raun ekki hægt að kennan neinum um þetta, en ansi dæmigert fyrir leikinn, því fram að þessu hafði Henson verið mun meira með boltann.

Seinni hálfleikur hófst eins og sá síðari endaði, Henson var mun meira með boltann og sótti ákaft án þess að skapa góð færi. Um miðjan hálfleikinn fékk Henson aukaspyrnu hægra megin, Axel gaf góðan bolta fyrir sem Lárus skallaði í mark. Gott mark og nú eygðu menn von á að ná að jafna leikinn. Áfram var sótt en Melsted fengu sókn og skoruðu agalegt slysamark, eftir tæklingu skoppaði boltinn í háum boga yfir Hödda og hafnaði í netinu, algjört grísamark.

Síðasta markið Melsted var svo skandall, sendinn innfyrir beint á kolrangstæðan leikmann. Hann lyfti höndum og annar leikmaður hljóp á eftir boltanum, komst einn í gegn, Höddi komst í boltann en náði því miður ekki að blaka honum nógu langt og hann endaði því út við stöng. Eftir leikinn vildi dómarinn meina að þetta hefði verið samkvæmt reglum, leikmaðurinn hefði ekki verið að hafa áhrif á leikinn. Það er rugl. Bolti er gefinn beint á leikmann sem er langt fyrir innan. Hvað getur vörnin gert annað en stoppað og beðið eftir rangstöðudómi? Þetta væri réttlætanlegt ef boltinn hefði verið gefinn út á kant og þessi leikmaður hefði ekki verið nálægt, en boltinn var gefinn beint á hann.

Það þýðir lítið að væla, Melsted áttu sigurinn skilinn þó markatalan gefi kannski ekki rétta mynd af leilknum. Henson var að spila sæmilega, boltinn var ekki að ganga nógu vel og alltof mikið var um slæmar sendingar. Einning voru menn að láta slæman dómara leiksins fara í taugarnar á sér og alltof mikið var um væl í dómara. Ég var svosem ekki saklaus á hrópaði töluvert af hliðarlínunni, en reyndi þó að eyða orku í að hvetja menn áfram í stað þess að kvarta undan dómgæslunni

Ekki gekk okkur vel í bikarnum þetta árið, en það er svosem hefði fyrir því hjá klúbbnum að detta út í fyrstu umferð!

Ég spilaði ekki nema fyrstu tíu mínútur leiksins, tognaði í vinstri kálfa og var úr leik. Helvítis bömmer :-( Tíu dagar í næsta leik og svo rúmlega þriggja vikna pása eftir það. Vonandi verð ég orðinn góður í löppinni fyrir leikinn á móti FC Ótta.

utandeildin