Örvitinn

Svefnpurkur, enn og aftur

Ég hef haft þann háttinn á undanfarið að fara á fætur þegar Kolla og Inga María vakna, slekk á vekjaraklukkunni, sem Gyða stillir á átta af einskærri bjartsýni, hún er náttúrulega farin í vinnuna löngu áður. Þetta hefur gengið ágætlega þar sem stelpurnar eru yfirleitt alltaf vaknaðar rétt rúmlega átta, hálf níu ef ég er heppinn.

Í morgun vöknuðum við klukkan tíu! Inga María kom upp í til mín skömmu eftir átta og steinsvaf - hvernig getur maður annað en sofið líka :-) Kolla vaknaði klukkan tíu og þá var ég eiginlega búinn að fá nóg!

Eldaði hafragraut, uppáhaldsmorgunmat stelpnanna og gluggaði í blöðin. Fátt merkilegt í blöðunum þennan morguninn, jú - fréttablaðið kom með survivor spoiler, ég las það - get sleppt því að horfa á næsta þátt.

Áróra Ósk kom heim þegar við vorum að borða, stuttur dagur hjá henni í dag þar sem hún var í prófi. Hún var byrjuð að lesa fyrir næsta próf þegar við fórum. Ég setti henni fyrir smá verkefni, að taka úr og setja í uppþvottavél, spennandi að sjá hvernig það gengur.

Við mættum í leikskólann rétt fyrir ellefu, veit ekki hvað fóstrurnar halda. Æi, mér finnst þetta fínt endrum og eins, veit ekki með vinnuveitendur mína :-O

Þetta gerðist síðasta nítjánda janúar.

fjölskyldan