Henson - Hómer
Henson spilaði fyrsta leik tímabilsins í utandeildinni. Andstæðingarnir voru Hómer sem við spiluðum við í fyrra og töpuðum 5-3. Það gekk betur í kvöld en þó ekki betur en svo að við töpuðum 1-0. þau úrslit eru ekki sanngjörn en fótbolti er ekki endilega sanngjörn íþrótt.
Það hefur ekki gengið vel í æfingaleikjum og ýmsa leikmenn vantaði í hópinn í kvöld þannig að nú var ákveðið að spila aftarlega, leggja áherslu á varnarleikinn og byggja út frá því.
Þetta gekk nokkuð vel, við pressuðum Hómer ekki framarlega eins og við höfum gert í undanförnum leikjum með litlum árangri heldur vörðumst frá miðju. Hómer fékk ekki mörg færi í fyrri hálfleik og Henson var sterkara liðið að mínu mati. Við spiluðum oft ágætlega saman en sóknarleikurinn var þó frekar bitlaus.
Um miðjan fyrri hálfleik fékk Henson svo vítaspyrnu eftir að markvörður Hómer braut á Alla. Hann ákvað að taka spyrnuna sjálfur og klúðraði henni með tilþrifum, skaut framhjá. Þetta má einfaldlega ekki gerast. Þegar við spilum aftarlega eins og í kvöld verðum við að nýta þau færi sem gefast.
Við vorum mættir með þrettán leikmenn, þannig að tveir voru á bekknum. Hjá Hómer voru fimm eða sex skiptimenn, ef ekki fleiri. Þetta fór að hafa áhrif í seinni hálfleik, en þá sótti Hómer meira. Fengu ekki mörg færi, áttu skalla sem Björn varði vel en fátt annað markvert.
Færi Henson voru ekki mörg, Kjartan átti ágætan skalla eftir fyrirgjöf frá Óla og ég átti skot af þokkalegu færi sem fór rétt framhjá.
Hómer skoraði svo mark þegar um fimmtán mínútur voru eftir að leiknum, áttu misheppnað skot af marki sem endaði hjá sóknarmanni sem fleytti boltanum áfram.
þetta var ágætur leikur hjá Henson, mun betri en síðustu leikir og við vorum óheppnir að landa ekki a.m.k. einu stigi. Það er hrikalegt að nýta ekki vítaspyrnu og aldrei að vita hvernig þetta hefði endað ef við hefðum komist yfir í fyrri hálfleik.
Nýr leikmaður spilaði með okkur í kvöld, Guðmunur kom sterkur inn í vörnina. Hann átti góðan leik og styrkir vörn okkar. Oddi spilaði ekki en kom með treyjuna sína þegar gengið var á hann. Ég veit ekki hvaða helvítis aumingjaskapur þetta var en það er ljóst að við söknuðum hans í leiknum, hann er sterkur í því að halda bolda og skapa svæði fyrir aðra.
Flestir áttu ágætan leik, Aggi og Óli voru að gera fína hluti á miðjunni og varnarlínan átti góðan dag. Markið var óheppilegt og kom eftir klúður við að hreinsa frá, en slíkt gerist af og til.
Ég fékk tak í kálfa í upphitun, tognaði á hlaupabretti í Sporthúsinu í síðustu viku en hélt ég væri orðinn góður, fann m.a. ekkert fyrir þessu á æfingu í vikunni. Spilaði samt allan leikinn, mestan hluta á miðjunni en frammi undir lokin. Ég held eftirá séð að það hafi ekki verið skynsamlegt að krukka í miðjuuppstillingunni því hún hafði virkað ágætlega. Menn vilja samt elta stigin þrjú og því var þetta skiljanleg breyting. Ég fann ekki mikið fyrir kálfanum í leiknum fyrr en undir lokin og þegar nokkrar mínútur voru eftir tognaði ég frekar illa, haltar nú um eins og ... hölt hóra. Þarf að hvíla alveg næstu daga, verð vonandi orðinn góður fyrir næsta leik sem er þarnæsta miðvikudag. Ég var svosem að gera þokkalega hluti á miðjunni en gerði ekki margt gáfulegt í framherjastöðunni. Átti nokkur skot sem ekki fóru á rammann, hefði mátt slaka aðeins og leita menn uppi í stað þess að láta vaða.
Leikurinn fór þokkalega prúðmannlega fram. Ég fékk ansi slæma byltu í fyrri hálfleik, fyrst straujaður niður og síðar fékk ég helvíti vont högg á belginn.
Björn markvörður spilaði fyrsta og síðasta leik sinn með okkur í sumar, en núna eftir helgi fer hann til Húsavíkur þar sem hann starfar í sumar. Það er agalegt að missa hann en vonandi fáum við bærilegan markvörð í staðin. Nokkrir eru inni í myndinni.
Enn vantar okkur leikmenn, vorum þrettán í kvöld. Snæbjörn er að fara til útlanda í mánuð og Lárus missir af einnig af næsta leik. Varnarlega erum við í ágætum málum, þurfum samt að bæta við okkur mönnum.
Þess má geta að lokum að Hómer vantaði að ég held tvo sterkustu leikmenn sína. Fyrnaöflugur senter þeirra spilaði ekki með í kvöld og svo var miðjumaðurinn sem var ansi öflugur í fyrra ekki heldur með. Þeir eru þó með ansi breiðan hóp eins og sjá mátti af fjölda varamanna.