MovableType ekki ókeypis
Ég er ekki mikill talsmaður frjáls hugbúnaðar en hef ekki komist hjá því að lesa ýmislegt um nýjasta útspil Six Apart, en frá og með útgáfu 3.0 af MT verður rukkað fyrir hugbúnaðinn. Það er óhætt að segja að þetta hafi vakið hörð viðbrögð. MT hefur aldrei verið frjáls hugbúnaður þó hann hafi verið ókeypis og alltaf hafa verið takmarkanir á því hvernig nota má kerfið.
Á heimasíðu sinni útskýrir Mena Trott þessa stefnu. Margir hafa sett inn athugasemdir, í formi trackback, og langflestir eru óánægðir.
Mark Pilgrim skrifar ágæta grein þar sem hann útskýrir að það er ekki verðið eitt og sér sem olli því að hann skipti um kerfi, heldur miklu frekar notendaleyfið.
Dave Winer skrifaði um daginn að það sé skrítið að sjá fólk kvarta yfir því að þurfa að borga eitthvað fyrir hugbúnað og ég er að einhverju leiti sammála því. Allt of margir virðast vera á móti því í prinsip að borga fyrir hugbúnað en sama fólki dettur ekki í hug að önnur þjónusta eigi að vera ókeypis. Ég er reyndar á því að oft snúist þetta um verð, sjálfur hef ég keypt töluvert af hugbúnaði á netinu, en verðið er yfirleitt á bilinu $10-$40. En eins og Mark bendir á í sínum pistli snýst þetta ekki einungis um verðið.
Reyndar þurfa ekki allir að borga, ef þú ert með einn notanda (höfund) og allt að þrjá vefi þarftu ekkert að borga. Þannig að í mínu tilviki þyrfti ég ekki að borga neitt, Gyða er hætt að blogga og því er í raun bara einn notandi í uppsetningunni hjá mér. En það er annað dæmi með Vantrúarvefinn, þar notum við nokkra höfunda og þyrftum því væntanlega að borga um $150, sem er ágætur peningur. Reyndar væri auðvelt að hætta einfaldlega að nota marga höfunda og nota undirflokka til að ná sama markmiði, en það breytir því ekki að þarna þyrftum við að skoða málið og vafalítið breyta notkun okkar ef við ætluðum okkur að uppfæra.
Ég sé reyndar ekki brýna þörf á því að uppfæra MT í augnablikinu, vissulega ýmsar nýjungar í nýrri útgáfu en ég er að nota gamla útgáfu sem hentar mér ágætlega, hef líka krukkað í nokkrum perl skrám sjálfur og nenni varla að standa í því að uppfæra kerfið.
Brad Choate er einnig með fínan pistil um málið.