Örvitinn

Ekki í frásögur færandi

Það gengur varla að ekki sé skrifuð dagbókarfærsla heilu dagana. Því skal sagt frá því sem í dag gerðist, jafnvel þó - eða kannski vegna þess - að það sé ekki í frásögur færandi

Byrjaði daginn eins og flesta aðra á því að fara með stelpurnar í leikskólann. Í morgun fórum við hjólandi, þ.e.a.s. stelpurnar hjóluðu - ég labbaði. Reyndar gengur þeim ekkert sérlega vel að hjóla. Það virðist erfitt að stíga hjólið hennar Kollu og Inga María hjólar bara á jafnsléttu á þríhjólinu. Þetta var því langt og strembið ferðalag í leikskólann í morgun. Strembið fyrir mig.

Fór á spítalann klukkan eitt og kíkti á pabba. Ég kom í þann mund sem fræðslan var að hefjast, ég fór með mömmu og pabba og hlustaði á frekar rýran fyrirlestur um hjartasjúkdóma. Auðvitað er þetta bara almenn kynning en ég lærði ekki margt nýtt. Var svo hjá foreldrum mínum þarna uppfrá í hálftíma eftir fræðsluna. Pabbi er hress. Þar sem mamma brást hratt við og hringdi á sjúkrabíl strax náðist að losa stífluna áður en nokkur skemmd kom í hjartað. Það skiptir gríðarlegu máli að fólk leiti strax til læknis ef það fær verk fyrir hjartað, því það er alltaf hætta á skemmdum í hjarta ef beðið er of lengi. Pabbi hefði aldrei hringt á sjúkrabíl sjálfur, það held ég að sé alveg víst. Hann fer væntanlega heim á morgun.

Rölti eftir það í Blóðbankann fyrst ég var á svæðinu. Ég lýg því, ég gerði það ekki bara af því ég var á svæðinu, ég vildi líka komast í blóðþrýstingsmælingu. Útkoman ekkert alltof góð, 139 í efri mörk. Síðast þegar ég fór í september 2002 voru efri mörk 119. Auðvitað er einhver sveifla í þessu en ég þarf greinilega að koma mér í betra form. Gaf blóð, át brauð og kíkti í blöðin.

Í kvöld er ég þreyttur, vaknaði snemma í morgun og er hálfum líter af blóði léttari. Var að byrja á Da Vinci lyklinum, ætla upp í rúm að lesa þar til ég sofna.

dagbók