Henson - Hvíti Riddarinn
Spiluðum æfingaleik við Hvíta Riddarann á gervigrasinu í Laugardal kl. 17:30 í dag. Frábært veður í laugardalnum, aðstæður eins og þær gerast bestar.
Hvíti Riddarinn er eitt af sterkari liðum utandeildar og greinilegt að þar eru samviskusamir piltar á ferð. Þegar ég mætt á völlinn 25 mínútum fyrir leik, fyrstur Henson manna, voru flestir leikmenn HR byrjaðir að hita upp. Ellefti leikmaður okkar mætti mínútu áður en leikur hófst, tólfti og þrettándi þegar leikurinn var rétt að hefjast. Ekki gat ég séð að nokkur leikmanna Hvíta Riddarans væri þunnur eða í slöku formi, sem er náttúrulega svindl, jafnvel í æfingaleikjum :-)
Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það að við steinlágum 6-1. Leikurinn var þó ekki alslæmur af okkar hálfu, Riddarinn er einfaldlega mun betra lið en við.
Við byrjuðum leikinn ágætlega og komumst 1-0 yfir eftir svona fimm mínútna leik. Ég fékk boltann á hægri kanti, gaf fyrir mark en of nálægt markverði þeirra sem hefði átt að hafa boltann en missti knöttinn klaufalega, Alli lumaði rétt hjá og potaði boltanum inn.
Riddarinn náði eftir þetta ágætum tökum á leiknum og spiluðu vel á milli sín, varnarleikur Henson var ekki alveg að ganga upp, sérstaklega fengu miðjumenn Riddarans að leika lausum hala þegar þeir tóku þátt í sókninni. Oft á tíðum spiluðu þeir mjög skemmtilega og boltinn gekk hratt á milli manna. þeir röðuðu inn mörkum og staðan í hálfleik var 4-1, síðari hálfleikur tapaðist semsagt 2-0 sem er skárra en samt vont. Við fengum ekki nema 2-3 færi í seinni hálfleik, ég lagði boltann á Snæbba sem fór illa með dauðafæri, Birgir brunaði fram í eitt skipti og átti gott skot sem markvörður þeirra varði í stöng og eitthvað örlítið meira átti sér eflaust stað.
Kobbi dæmdi leikinn og gerði það ágætlega, dæmdi þó eina vítaspyrnu á okkur sem var rangur dómur, þeir klúðruðu spyrnunni. Leikurinn var prúðmannlega leikinn en þó var farið að gæta nokkurs pirrings í lokinn. Undarlegt þótti mér að sjá að einhverjir Riddarar voru orðnir pirraðir, í stöðunni 6-1 hefði ég haldið að menn héldu góða skapinu.
Þetta var ekki vel spilað hjá Henson, þó við séum vafalaust verra lið en Riddarinn áttum við að gera betur í kvöld. Menn verða augljóslega að skoða leikskipulag betur í næstu leikjum. Verjast aftar á vellinum og halda boltanum betur innan liðsins. Við erum ekki í neinu formi til að pressa menn og því ekki vit í öðru en að bakka bara og verjast á miðju. Einnig er alveg ljóst að það þarf að fara að hóa í mannskap, okkur vantar fleiri menn - sérstaklega nokkra sem hafa verið að spila með okkur síðustu ár. Hópurinn er einfaldlega ekki nógu breiður í dag.
Ég spilaði allann leikinn, var ekki að gera mikið af viti. Lagði upp markið og skapaði dauðafærið hans Snæbba en hefði mátt vera miklu duglegri.
Maður leiksins að mínu mati var Biggi, duglegur og lét heyra í sér.