Örvitinn

Tóti fermist

Fórum í fermingarveislu hjá Þórði frænda í dag. Boðið var haldið í golfskála á Seltjarnarnesi, rokrassgati Íslands.

Þórður fékk fullt af gjöfum, ég keypti tvo PS2 tölvuleiki frá okkur, Jónu Dóru og Didda (og mökum + börnum, en maður þarf ekki að taka það fram, en ég geri það samt!) Ég er samt ennþá að spá í að byrja að gefa bara Biblíur og sálmabækur í fermingargjafir :-) Æi nei, ég hef gaman af því að gefa eitthvað sem krakkana langar í. Tóti var sæll og glaður þegar hann taldi peningana, uppskeran var með besta móti.

Tóti sveiflar seðlum

Þetta var matarveisla, vinir og ættingjar sáu um veitingar. Í boði var saltað svínslæri, besti matur í heimi samkvæmt könnun sem ég framkvæmdi sjálfur (úrtak, mínir nánustu ættingar) og hellingur af meðlæti. Svo voru náttúrulega kökur, þar með talið kransakaka sem Þórður bróðir útbjó.

Ég tók myndir, Jakobína bað mig um að sjá um að taka myndir og gæta þess að ná myndum af öllum gestunum, ég sagði henni að ég færi hvort sem er ekkert án myndavélarinnar þessa dagana, þannig að það var sjálfsagt mál :-) Tók slatta af myndum við frekar erfiðar aðstæður, rosalega bjart úti - ekkert mjög bjart inni, ég veit ekki alveg hvernig ég á að höndla svona rosalega bjartan bakgrunn með góðu móti. Sýnist þó vera slatti af ágætum myndum inn á milli. Ég þarf að eignast stærra minniskort - tók ekki myndir í mestu gæðum til að fylla ekki 256MB kortið.

Setti nokkrar myndir frá veislunni á vefinn, þetta er ekki þverskurður af þeim myndum sem ég tók. Ég er ánægður með þessa mynd af mömmu og þessa af Kollu.

Já,frétti svo að Auður og Benni ætla að gifta sig í sumar.

fjölskyldan