Engar bollur takk
Ég læt rjómabollurnar eiga sig í dag, fékk minn skammt á laugardaginn. Tróð þá í mig nokkrum vatnsdeigsbollum með súkkulaði, sultu og rjóma. Óskaplega gott - óskaplega óhollt. Merkilegt hvað maður getur gleypt þetta í sig fyrirhafnarlítið. Ég hef aldrei verið hrifinn af hefðbundnum rjómabollum, þykir þær satt að segja vondar. En vatnsdeigsgumsið er gott, maður treður heilli bollu upp í sig og hún bráðnar í kjaftinum!
Kolla og Inga María bolluðu mig í morgun. Ég heyrði náttúrulega í þeim langar leiðir en þóttist sofa og leyfði þeim að vekja mig. Þær gerðu þetta ósköp blíðlega og ég hlaut ekki skaða af.