Örvitinn

Þetta ku vera laugardagur

Laugardagar eru komnir í nokkuð fastar skorður. Ég fæ að sofa frameftir, er vakinn um ellefu þegar stelpurnar koma og byrja að hoppa á mér, iðulega lenda þær á vitlausum stað! Þvínæst skundum við á Arnarnes í hádegismat hjá tengdó sem eru þá búin að fara í bakarí. þar sitjum við og röbbum, ég skelli mér svo fyrir framan sjónvarpið, glápi á fótbolta og les moggaskamt vikunnar. Í dag las ég meðal annars umtalaðan leiðara í miðvikudagsblaðinu, átti von á einhverju merkilegra en þetta var svosem ágætt.

Kolla fór í dans klukkan hálf fjögur. Við skutluðum henni og fórum svo í smá göngutúr í grasagarðinum með Ingu Maríu. Eftir dansinn var mér skutlað í inniboltann en stelpurnar fóru aftur á Arnarnesið þar sem Kolla og Inga María gista í nótt.

Ég er nýkominn heim úr boltanum, er sestur fyrir framan tölvuna að lúslega vefinn, með bjór í hönd.

Erum á leið í matarboð til Badda og Sirrý. Ég er ansi hræddur um að þar verði boðið upp á eitthvað gómsætt og að áfengi verði jafnvel haft um hönd. Hver veit, kannski verð ég bara ölvaður.

Svona eru þeir, þessir laugardagar.

dagbók