Örvitinn

Skattkorti komið til skila, vegabréf bíður til morguns

Skaust í skattinn í hádeginu og náði í nýtt skattkort, tók enga stund og þjónustan var fín - skil ekki hvað fólk er alltaf að kvarta undan skattinum! Rölti svo með skattkortið yfir í starfsmannahald Landsbankans. Ég var ekkert að stressa mig á skattkortinu í síðustu mánuði síðasta árs enda voru skattamál í rugli hjá ákveðnum aðilum og ég var að borga of lítinn skatt á tímabili, ákvað því að borga of mikið síðustu þrjá mánuði ársins til að vega upp á móti því. Bað svo ákveðna aðila um að senda skattkortið á nýjan vinnuveitanda í síðasta mánuði en það var ekki gert þrátt fyrir loforð um annað. Alltaf gott að geta treyst á fólk en þetta var svosem mér að kenna, ég átti að vera löngu búinn að sjá um þetta sjálfur.

Ætlaði að redda nýju vegabréfi í leiðinni enda styttist í Lundúnarferð, síðan Manchesterferð og að lokum sumarfrí í Evrópu (áfangastaður óákveðinn). Hélt maður sækti um vegabréf á Lögreglustöðinni við Hlemm en hið rétta er að það er gert í Útlendingastofnun í Skógarhlíð. Fer þangað aftur á morgun með nýjar passamyndir því það er að sjálfsögðu enginn myndasjálfsali í Skógarhlíðinni. Planið var að stökkva yfir á Hlemm og taka mynd en það var full mikil bjartsýni að gera ráð fyrir að það væri hægt að redda passamynd á sama stað og maður sækir um vegabréf. Haldið þið annars að þetta væri svona ef einkaaðili sæi um þessa afgreiðslu? Ég held ekki. Hvað um það, ég er ekkert að kvarta, þetta var klaupaskapur af minni hálfu. Reddaði myndunum í Mjódd rétt áðan.

dagbók