Allt á kafi í snjó
þegar við komum heim í kvöld sáum við að í Bakkaselinu var allt á kafi í snjó. Ég gat ekki lagt fyrir framan bílskúrinn heldur þurfti að sækja skóflu og moka svo þar væri pláss fyrir bílinn. Fyrir framan húsið var líka dágóður skafl sem við þurftum að vaða til að komast inn. Hitinn í stéttinni réð ekkert við þetta snjómagn og eins og sjá má á myndinni var þetta ágæt torfæra fyrir Kollu. Inga María slapp við erfiða göngu enda svaf hún í fanginu á mér, sofnaði í bílnum úrvinda eftir daginn með ömmu og afa.
Ég réðst á snjóinn með skóflu í hönd, fyrst fyrir framan húsið og svo fyrir framan bílskúrin. Þetta voru fín og skemmtileg átök, það er gaman að svitna við snjómokstur, allavega meðan það gerist ekki á hverjum degi.
Náði að troða bílnum á milli snjóskafla og vona bara að ég komist út úr stæðinu í fyrramálið :-) Það er ekkert sérlega mikið pláss bílstjóramegin en vel hægt að komast í bílinn farþegamegin.