Örvitinn

Kirkjuferðin í morgun

jesú á krossinum

Fór í Kirkju með Ingu Maríu og Kollu í morgun, leikskólinn fór og foreldrum var boðið líka þannig að ég ákvað að skella mér með til að sjá hvað væri í gangi.

Þetta var verra en ég bjóst við. Jesús Kristur, krossmenn eru sjúkir í hausnum, svo ég segi ekki meira í bili. Það sem ég varð vitni að var sorglegt dæmi um hindurvitni og heimsku á 21. öldinni. Hvílík barnamisnotkun.

Ég mætti með stelpurnar í leikskólann rétt fyrir níu í morgun. Það var ætlast til þess að foreldrar myndu hitta krakkana í Kirkjunni en ég nennti ekki svoleiðis rugli og labbaði bara með mínum stelpum í Kirkjuna. Þigg alveg svona aukastundir með stelpunum. Við gengum þessa stuttu leið í kirkjuna og settumst inn í sal, stelpurnar voru í góðum gír Ég var með myndavélina með mér og tók nokkrar myndir en rafhlöðurnar entust því miður ekki allan tímann.

Þetta byrjaði ósköp sakleysilega, barnakór gekk inn hringjandi bjöllum og söng svo nokkur jólalög. Ósköp skemmtilegt og fallegt, stelpurnar skemmtu sér vel og eins á sést á myndinni neðst var stemmingin fín. Pabbi hennar Ingu Maríu var ekkert að stressa sig þó tungan væri látin flakka í hinu heilaga húsi. Krakkarnir fóru loks af sviðinu, settust í sætin sín og presturinn byrjaði að messa.

staying alive

Jæja, presturinn fór að rabba um jólin og fæðingu frelsarans. Maður kippir sér ekki upp við það, þannig tala prestar - þeir eru bara heilaþvegnir á þann veg. Auðvitað er þetta Jesúhátíð í þeirra huga, þeim dettur ekki annað í hug, hafa eflaust ekki hugmynd um hversu óheilög þessi hátíð er í raun hjá flestum. En þegar maðurinn fór að blaðra um Jesú, drottinnn minn dýri.

Hann sagði eitthvað í þessa áttina: "Hér er í þessu húsi er gott að tala við Jesú, við getum talað við Jesú heima hjá okkur og það er alltaf gott að tala við Jesú. Nú skulum við setja hendurnar saman og tala við Jesú". Ég minni á að salurinn er fullur af krökkum á leikskólaaldri. Allir krakkar mæta í kirkjuna og ekki er boðið upp á undanþágu. Maður hefði hugsanlega getað sleppt því að fara með krakkana í leikskólann í morgun en það er frekar drastískt.

Þvínæst stjórnaði presturinn söng. "Jesú er besti vinur barnanna" var sungið tvisvar af mikilli innlifun eins og sést á myndinni. Flestir krakkarnir voru með textann á hreinu enda hefur leikskólaprestfíflið vafalítið verið búinn að renna í gegnum hann nokkrum sinnum. Ég held ég hafi séð glitta í hann fyrir utan salinn í lokin. Hafði ekki geð í mér að heilsa honum.

Helgileikurinn var næst, ósköp sætt að sjá litlu krakkana hlutverk sínu með Jesúbarnið. Sagan er alltaf jafn steikt en það er gaman að þessu. Í lokin söng svo kórinn fleiri jólalög, í þetta skiptið með meira trúarívafi. Ekkert sem maður lætur pirra sig.

Farið var með faðirvorið. Án gríns, þá finnst mér alltaf jafn klikkað að horfa á fullorðið fólk spenna greipar og þylja upp galdraþulu. "Faðir vor, þú sem ert á himnum...." Ég horfi á fólk sem hefur spennt greipar, lokað augun og þylur þetta og hugsa.... eru þetta ekki trúarnöttarar? Kolla spennti greipar eins og allir hinir - mér fannst það bara sætt.

Ég tók ákvörðun í morgun. Hér eftir hefst trúleysisáróður á mínu heimili. Hingað til hef ég reynt að ræða þessi mál lítið og frekar hógvært þannig talað en nú mun ég nýta hvert tækifæri til að upplýsa dætur mínar um það hversu mikil vitleysa þetta er. Ég er þegar byrjaður að koma því inn í kollinn á þeim að Jesú sé bara skáldskapur eins og Herkúles og fleiri góðar fígúrur. Ég er að vona að ég geti komið af stað hugmynd (meme) sem dreifist til annarra krakka, já ég mun ekki einu sinni hlífa öðrum börnum við þessum áróðri. Af hverju ætti ég að gera það? Foreldrum þeirra virðist gjörsamlega sama þó þessum áróðri sé troðið upp á mín börn. Það er alveg út í hött að ætla sér að vera líbó gagnvart trúmálum á eigin heimili þegar stofnanir sem maður treystir börnunum sínum fyrir vinna gegn manni á þennan hátt. Hingað til hef ég sagt eitthvað í þessa áttina; "Sumir trúa því að... en ekki ég" en héreftir mun ég segja "Þetta er bull og vitleysa og þeir sem trúa þessu eru kjánar..." (Þó ég hafi skrifað þetta hér hef ég aldrei orðað þetta svona við dætur mínar, bara svo það sé á hreinu.)

Ég kvaddi stelpurnar í kirkjunni, þær gengu með hinum krökkunum (og fóstrunum) til baka. Ég þurfti að drífa mig í vinnuna.

kristni
Athugasemdir

Halldór E. - 11/12/03 22:50 #

Blessaður Matti, Þér fannst barnakórinn fínn, helgileikurinn sætur, en vandamálið er að bænir og sér í lagi Faðir vor-ið er way-to-much. Þannig getur þú alls ekki skilið að fullorðið fólk fari með bænir, "tali út í loftið". Ef ég skil þig rétt, þá gerir þú greinarmun á hefðum og/eða venjum annars vegar og trúariðkun (s.s. bænum) hins vegar. Það fyrrnefnda getur verið ásættanlegt, það síðara ekki. Ég get skilið þetta viðhorf þitt, hins vegar er ljóst að heimsókn í kirkjuna, hlýtur alltaf að vera á forsendum kirkjunnar. Hluti af þeim forsendum er einhvers konar trúariðkun. Þannig er ekki við hæfi að deila á sr. Valgeir fyrir að gera það sem honum ber. Gagnrýnin hlýtur að beinast gegn þeim sem taka ákvörðunina um að fara með börnin til kirkju. Að snúast til varnar með því að ráðast að trúarhugmyndum kristinna manna í gegnum börnin þín, ég hef efasemdir um að hún gefist vel. Það er ekki sérlega gott vegarnesti út í lífið að hafa lært í æsku að einhver hluti mannkyns séu vitleysingar eða kjánar, vegna trúar sinnar. Það er mun vænlegra að kenna fólki að einstaklingar hafi mismunandi skoðanir. Eins og þú segist hafa gert.

E.s. Myndin af sr. Valgeiri er frábær!!!

Matti Á. - 11/12/03 22:57 #

Það er rétt að varla er við Séra Valgeir að sakast enda átti þetta sér stað á hans heimavelli. Gagnrýni mín hefur líka hingað til snúist um að ekki þessu sé ekki troðið upp á mig og mína.

Ég hef ósköp lítið á móti því þegar farið er með faðirvorið, mér finnst það bara svo absúrd! Ég horfi á fólkið og skil ekki hvað það er að spá :-)

Ég hef einmitt forðast að tala við börnin mín á þann hátt sem ég lýsi, en eins og áður hefur komið fram þá forðast aðrir það ekki. Prestar og annað kristið fólk segir ekki "ég trúi á Jesú"... heldur segir það "Jesú er til, hann er sonur Gvuðs" og svo framvegis. Það er ekkert jafnvægi í þessum málum ef ég er svo hlutlaus á móti.

Myndin er fín, þakka þér, það var ekki annað hægt en að taka nokkrar myndir af þessum tilþrifum :-)

Matti Á. - 11/12/03 23:08 #

Svo ég ítreki skoðun mína aðeins, ég hef ekkert á móti því að aðrir foreldrar fari með sín börn í Kirkju.

Óli - 11/12/03 23:42 #

Sæll Matti og takk fyrir síðast. Get nú ekki annað enn blandað mér í málið þegar ég sé myndina af þessu prestfífli þarna. Gaman að segja frá því að það var einmitt þessi mannleysa sem sannfærði mig endanlega um hvurslags hrokabákn og valdaklíka kirkjan er. Sumum kann að þykja ég taka stórt upp í mig þegar ég segi að þessi maður er eitt mesta fífl sem ég hef mætt á minni lífsleið. Ég segi það og stend við það að þetta fífl stjórnast af græðgi og frekju. Þessa reynslu hef ég af manninum þegar hann þóttist vera sinna "sálargæslu" við andlát náins ættinga míns, þess í stað fór maðurinn í bissness og breytti útför sem þegar var skipulögð þannig að hann kom að öllu sínu liði, organista sem gjörsamlega klúðraði sínum flutningi, og einsöngvara og fl. Metnaðarleysið var algjört hjá þessum organista, hann var að byrja að skoða sín lög 5 mín fyrir athöfn, og árangurinn var eftir því. Eins og fyrr segir er þetta maðurinn sem endanlega sannfærði mig um kjánaskapinn sem fær að þrífast innan þessarar valdagræðgisstofnunar sem kirkjan er.

Matti Á. - 11/12/03 23:46 #

Blessaður Óli minn,

Stór orð en ég læt leyfi þeim að standa enda sagt margt verra sjálfur ;-)

Já, jarðarfararbransinn er engum til sóma. Ég hef sem betur fer ekki farið í margar jarðarfarir, en í meirihluta þeirra skipta sem ég hef þó farið hafa blessaðir prestarnir klúðrað einhverju - gleymt nánum ættingum í upptalningu, klúðrað nafni hins látna og fleira í þá áttina.

Halldór E. - 11/12/03 23:56 #

Blessaðir, ég verð að segja að Óli gengur mjög langt, þegar hann heldur því fram að prestur misnoti sér aðstöðu sína við útför. Ég myndi ekki leyfa slíkri fullyrðingu að standa í mínum athugasemdum, enda notast ég ekki við slíkt. Ég er ekki viss Matti, um að þú hafir komið með jafn grófar athugasemdir sjálfur. Ég efast um það.

Hitt er síðan allt annað mál að fjárplógsstarfsemin í kringum jarðarfarir er óþolandi en þar eiga prestarnir að öllu jöfnu minnstan þátt í máli. Nema ef við gerum þá ábyrga fyrir því að vara aðstandendur ekki við.

hjalti - 12/12/03 04:13 #

Ég skil ekki hvað þið hafið á móti prestum. Eru þeir ekki trúleysisboðar númer eitt í íslensku samfélagi. Ég held amk að fermingarpresturinn minn hafi sannfært mig.

Matti Á. - 12/12/03 08:42 #

Halldór: Ég leyfi ummælum Óla að standa, enda sjá allir sem þau lesa að þarna er um tilfinningar hans að ræða, honum er heitt í hamsi og þegar svo er lætur maður stundum stór orð falla. Sanngjarnir menn lesa þetta með því hugarfari og reyna að skilja hismið frá kjarnanum.

Hjalti: Ég hef ekkert á móti prestum, það er trúin sem ég lasta! Þetta er svipað og með viðmót biskups til samkynhneigðar og samkynhneigðra, hann elskar syndarann en hatar syndina :-)

Annars er þetta góður punktur, mjög margir verða hissa þegar þeir komast að því að dæmigerður prestur er miklu trúaðri en þau áttu von á. Íslendingar eru dáldið fastir í þeirri mítu að þjóðkirkjuprestar séu hófsamir trúmenn, en staðreyndin er sú að borið saman við meðalmanninn eru þjóðkirkjuprestar flestir ofsatrúmenn.

Óli - 12/12/03 09:20 #

Fæ engan vegin séð að ég gangi eitthvað langt þegar ég segi frá því sem miður fer í samfélaginu. Ég er einugis að segja frá minni reynslu hérna. Það er auðvitað alltaf sárt að heyra sannleikann, svoleiðis er það nú bara. En ég get staðið við hvert orð sem ég sagði hér í athugasemdinni á undan, svoleiðis er það nú bara.

Óli - 12/12/03 09:25 #

Bæti því við að hér er ekki um tilfinningu að ræða heldur reynslu, þar er þónokkur munur á.

Matti Á. - 12/12/03 09:28 #

Auðvitað er hér um reynslu þína að ræða Óli, en það eru tilfinningarnar sem ráða orðalaginu :-) og það er orðfarið sem fer fyrir brjóstið á sumum.

Árni Þór - 12/12/03 09:48 #

Mér finnst myndin af Séra Valgeiri frábær. Fimm stjörnur fyrir hana. Ég gæti trúað að hann myndi glaður þiggja eintak sjálfur :)

Óli, ég samhryggist þér vegna ættingja þíns og ég þykist ekki vita hvað fór ykkur Valgeiri í millum þennan dag og ætla ekki að bera brigður á frásögu þína.

Hinsvegar er ljóst að alltaf eru tvær hliðar á einni sögu og leyfi ég mér að halda þeim möguleika opnum að hanns hlið gæti varpað öðru ljósi á málið. Sú ákvörðun mín styrkist við það að ég þekki Valgeir og þykir hann vera hinn besti náungi og lýsing þín ekki vera dæmigerð fyrir hans persónu.

Mér finnst þú vega ómaklega að honum og þætti betra að þú kæmir athugasemdum þínum um misgjörðir embættismanna frá þér á málefnalegri máta og þá til réttra aðila.

Sjálfur myndi ég panta tíma með hlutaðeigandi aðilum, Valgeiri sjálfum og fulltrúa sóknarnefndar og fara yfir þá hluti sem öngruðu mig. Ef sú viðleitni lyki málinu ekki á fullnægjandi hátt myndi ég jafnvel fara með málið á næsta skref, til biskupsstofu eða ráðherra. Ef það sem þú segir er rétt þá er það alvarlegt mál og ég vona að þú hafir manndóm í þér til að fylgja málinu eftir og sjá til þess að aðrir lendi ekki í hinu sama...

...nema þú hafir kannski verið að taka stórt upp í þig?