Örvitinn

Meira um jólin hans Jesú

Í kvöld var guðfræðineminn Guðni Harðarson tjá sig um skrif mín á þessar síðu. Ég fagna því að nýir trúmenn bætast í hóp þeirra sem þora að tjá sig. Eitthvað virðist hann ósáttur við málflutning minn og ekki er laust við að honum sé heitt í hamsi. Mér finnst málflutningur hans reyndar frekar vafasamur og tilvitnanir í mig selektívar.

Sínu verst er þó hin kristna trú sem Matti eyðir miklum tíma í að finna allt til foráttu og hefur hann lýst því yfir að sr. Bolli Pétur Bollason sé rétt eins og biskupinn fífl, (ástæðan er sú að biskupinn ali á fordómum í garð trúlausra) þó Matti Á sjái sjálfur ekkert athugavert við að fullyrða ítrekað að þeir sem trúi séu einfaldlega geðsjúklingar, trúarnöttarar eða hyski.

Já, þetta hljómar ekki vel, er það nokkuð? Kíkjum aðeins nánar á þetta. Í fyrsta lagi kalla ég ekki bara Biskupinn og Séra Bolla fífl heldur færi ég rök fyrir því. Ef menn hafa eitthvað út á þau rök að setja geta þeir andmælt þeim, en að afgreiða þetta sem skítkast er ódýrt, þetta er nefnilega málefnalegt skítkast sem virðist einmitt stundum vera sérsvið Biskups og föður hans.

Í annan stað fullyrði ég ekki ítrekað að þeir sem trúi séu "einfaldlega geðsjúklingar". Það er rangt og einfaldlega vitlaust lesið hjá Guðna, það að "geðsjúklingar séu gjarnan glaðir" fjallar einmitt um geðsjúklinga og gleði, nema þetta sé lesið í ljósi krists. Þetta svar var annars bara léttur útúrsnúningur á svarinu á undan. Trúarnöttara stimpillinn er frekar saklaus að mínu mati, sjálfir hika þjóðkirkjumenn ekki við að stimpla ýmsa aðra trúmenn sem öfgatrúmenn. Þykir mér fullmikil viðkvæmni að gráta undan þessu.

Síðasta atriðið er áhugaverðast. Skoðum það eitt og sér. "þó Matti Á sjái sjálfur ekkert athugavert við að fullyrða ítrekað að þeir sem trúi séu einfaldlega hyski"
Í fyrsta lagi, þá hef ég bara sagt þetta einu sinni, það er auðvelt að sannreyna. Í öðru lagi var mér heitt í hamsi og í þriðja lagi sá ég sjálfur eitthvað athugavert við þetta. Það stendur því ekki steinn yfir steini í málfutningi Guðna.

Inngangur Guðna sem ég hef hér fært rök fyrir að ekki stenst nokkra rýni er settur fram til að benda fólki á hverslags öfgamaður það er sem hann er að fást við. Slíkt kann aldrei góðri lukku að stýra en virðist vinstælt meðal guðfræðinga. Þessi rökvilla heitir brunnurinn eitraður

Hann heldur áfram og sakar mig nú um "staðreyndavillu". Þetta þykir mér ótrúleg fullyrðing enda er löngu sannað að allt sem ég segi er satt, ef ekki nú þegar þá a.m.k. síðar þegar ég hef fengið tækifæri til að breyta því eftirá :-P

Hver er þessi hræðilega staðreyndavilla? Jú, hún er þessi: ",þegar trúmenn um allan heim sannfæra sjálfa sig um að jólin komi Jesú eitthvað við" þarna fullyrði ég nefnilega að mati Guðna að "að jólin komi Jesú ekkert við".

Reyndar fullyrði ég ekkert slíkt í þessari setningu, þetta er einföld lýsing á veruleikanum, trúmenn eru afskaplega uppteknir af því að jólin komi Jesú eitthvað við. Pistill Guðna er ágætt dæmi um það. Þarna finnst mér hann kominn út í hálfgerðan strámann.

En sjáið til. Jólin koma Jesú ekkert við. Ef þessi blessaði Jesú var til á annað borð fæddist hann alls ekkert á þessum tíma. Jólin voru haldin löngu fyrir ætlaða fæðingu hans og kristnir menn stálu jólunum einfaldlega. Örlítill hluti þjóðarinnar heldur jól útaf trúarástæðum, örlítill Meirihlutinn heldur fjölskylduhátíð, etur góðan mat, skiptist á gjöfum, les bækur og spáir ekki vitund í himnafeðgana nema rétt þegar útvarpsmessan ómar í bakgrunninnum.
En þó jólin komi jesú ekkert við er ekki þarmeð sagt að kristnir menn haldi þessa hátið ekki heilaga og að í dag tengi flestir jólin við himnafeðgana. Staðreyndin er bara sú að þessi tenging skiptir í raun engu máli fyrir þorra landsmanna, flestu fólki eru drullusama um krosslaf og himnadrauginn, etur sinn kalkún eða hamborgarhrygg og lætur sér líða vel í faðmi fjölskyldunnar.

Um þetta erum við eflaust sammála að stórum hluta, nema hvað, Guðni vill meina að í dag séu jólin hátíð frelsarans þó þau hafi einu sinni verið heiðin hátíð.

Hann fer margtroðnar slóðir, þegar hann tínir það til sem rök fyrir trúarhita íslendinga að kirkjusókn sé góð um jólin.

Kirkjur landsins eru allavega aldrei jafnvel sóttar, aðventukvöld, tónleikar með sálmum um lausnarann eða messur yfir jólahátíðina eiga stóran þátt í lífi þorra þjóðarinnar.

Vissulega er kirkjur landsins vel sóttar. Mest er þó sóknin þegar menningaratburðir eiga sér stað, þjóðkirkjumenn eru óvenju duglegir við það þessa dagana að telja alla hausa sem ráfa inn um kirkjudyrnar. Þannig má maður ekki skíta í Hallgrímskirkju án þess að búið sé að telja mann og skrifa svo um það morgunblaðsgrein viku síðar. En þó kirkjur séu vel sóttar er ég viss um að skemmtistaðir og kvikmyndahús landsins séu mun betur sótt um hátíðarnar. Þeir eru nefnilega miklu fleiri sem ekki fara í kirkju, jafnvel þó verið sé að halda upp á afmæli frelsarans. Ætli endurkoma Hilmis verði ekki ofar í hugum landsmanna um þessi jól en fæðing Jesú?

Á langflestum heimilum eru til að mynda aðventukransar. Orðið aðventa er dregið af latneska orðinu adventus sem merkir koma, þ.e. koma Krists, og skírskotar til jólanna sem fram undan eru.
Hvert kerti sem kveikt er á ber nafn tengt komu jólanna: t.d. spádómskerti, hirðakerti, og betlehemkerti, lengi gæti ég talið upp siði og venjur tengdar jólum þar sem Jesú kemur við sögu.

Ekki veit ég hvaða kerti maðurinn er að ræða um, aldrei hef ég heyrt um spádómskerti, hirðakerti eða betlehemkerti, ég verð bara að játa það hér og nú. Kannski hefur Guðni alist upp á kristnara heimili en gengur og gerist? Óli Gneisti er búinn að benda á að aðventukrans er eins og flest annað jóladótið komið úr heiðni.

Þó trúmenn haldi hátíð og fagni fæðingu frelsarans sem væntanlega aldrei fæddist og örugglega engann frelsaði, breytir það því ekki að hátíðin sjálf er heiðin.

Gjafirnar, skrautið, maturinn, tímasetningin, jólasveinarnir, dansarnir, gleðin. Þetta er það sem gerir jólin að því sem þau eru hjá þorra íslendinga. Prestar og guðfræðingar munu á næstu dögum hrópa hátt um að allir skuli fagna hátíð frelsarans.
Látið bara eins og þið heyrið ekki í þeim enda skipta himnafeðgarnir engu máli þegar setið er til borðs með fjölskyldu og vinum og stundarinnar notið. Þeir sem þurfa að flækja slík móment með hindurvitnum og galdrasögum eiga að mínu mati dálítið bágt.

kristni
Athugasemdir

Halldór E. - 05/12/03 22:11 #

Blessaður aftur, ég varð fyrir undarlegri reynslu áðan, sem ég verð að deila með ykkur hér. Ég stóð í Hans Petersen og hugðist velja mér jólakort þessa árs. Hans Petersen er án vafa einn af stærri seljendum á markaðnum, enda "fylgja" myndir af börnunum með kortunum sem keypt eru. Í jólakortaflóru fyrirtækisins eru ENGINN kort með trúarlega tilvísun. Þegar ég stóð framan við kortastandinn var engu líkara en Jesús væri ekki til (og hvað þá ástæða hátíðarhaldana í lok mánaðarins). Um væri að ræða hátíð grenitrjáa og kalla í rauðum náttfötum. Sem snöggvast flaug mér í hug hvort Matti hefði e.t.v. rétt fyrir sér jólin hefðu ekkert með fæðingu frelsarans að gera fyrir þorra Íslendinga. Það var mjög skrítin tilhugsun og næsta trúarleg.

Matti Á. - 05/12/03 22:33 #

Já þetta er merkilegt, fyrir einhverjum árum gaf Siðmennt út jólakort sem var með flottri landslagsmynd á minnir mig, það vakti lukku. (það skal tekið fram að ég mæli hér ekki fyrir hönd Siðmenntar) :-P

Ég veit ekki hvort þér er full alvara Halldór ;-) en ég stend í þeirri trú að þessi hátíð hafi ósköp litla trúarlega merkingu hjá flestum löndum mínum. Ég gef lítið fyrir rök eins og þau sem Guðni setti fram um mikla Kirkjusókn um jólin, því eins og þú veist þá getur maður hrifist af trúarlegri tónlist þó maður sé gjörsamlega trúlaus og aldrei er meira af slíku á boðstólnum en akkúrat í Desember. Einnig er hefð fyrir því í ýmsum fjölskyldum að mæta í jólamessu, slíkt þarf ekki að hafa mikla trúaralvöru á bak við sig.

Deja ekki líka fleiri en vanalega í desember - þannig að jarðarfaramæting er eflaust massív :-P

Halldór E. - 05/12/03 23:47 #

Blessaður, varðandi alvöruna þá upplifði ég að raunveruleikinn liggur líklega einhvers staðar á milli hugmynda þinna og minna. Þetta með jarðarfarirnar er rétt, en þó litið sé fram hjá þeim er kirkjusóknin gífurleg í desember. Ég gæti sem best trúað því að í söfnuðinum þar sem ég starfa séu 5000 komur í kirkjuna í desember, en skráðir meðlimir eru rétt um 6000. Auðvitað eru "trúarnöttarar" sem eiga kannski 6-8 komur, en þeir eru innan við 100. Aðrir eru að koma þetta einu sinni eða tvisvar. Hefðir skýra auðvitað ýmislegt, jólakortavalið í Hans Petersen segir sína sögu, tónlistin hefur eitthvað vægi (mismikið eftir kirkjum), Björn Bjarnason talaði hjá okkur um daginn (+/- ?) o.s.frv. Enn það breytir því ekki að hópurinn sem kemur hefur einhverjar taugar til trúarlegrar iðkunar, þetta sjáum við t.d. í notkun á bænakertum og þátttöku í altarisgöngum (sem eru "NÝ" hefð á Íslandi með sterka trúarlega skýrskotun).