Birting vefgreina (hvað varð um vísanir?)
Mér þykir það undarleg lenska að birta annarra manna skrif í heild á eigin vefsvæði.
Skoðun gerir þetta og finna.is einnig
Mér finnst þetta röng notkun á vefnum. Ef fólk vill vísa á einhverja grein er að mínu mati rétt að birta úr henni úrdrátt, jafnvel taka saman umfjöllunarefnið með eigin orðum og setja vísun á upphaflegu greinina.
Höfundar efnis eiga, að mínu mati, rétt á því að fylgjast með því hverjir lesa efni þeirra á vefnum. Með því að taka það í heilu lagi og birta annars staðar, jafnvel að þeim óspurðum, hafa þeir ekki lengur tækifæri til þess.
Með tilkomu auglýsinga á vefsvæðum er þetta svo orðið alvarlegra mál. Auglýsingar á netinu virka einungis ef traffík er nokkur. Með birtingu greina í heild sinni er komið í veg fyrir að lesendur fari á upphaflegu síðuna og því búið að stela á vissan hátt verðmætum frá höfundinum.
Í gvuðanna bænum, ekki misnota vefinn, gerið samantekt og vísið svo á upphaflegu greinina. Hitt er bara þjófnaður (að mínu mati)
Árni Þór - 20/11/03 13:37 #
Ég er nokkuð viss um að þetta sé brot á höfundarréttarlögum. Náungi að nafni Rob Redmond heldur úti stórskemmtilegri síðu um karate, www.24fightingchickens.com þar sem hann birtir greinar eftir sjálfan sig. Rob þessi háir heilagt stríð gegn ritstuldi á netinu þar eð hann lendir oft í að hans greinar lenda í heilu lagi á vefjum hingað og þangað um internetið. Hann fjallar heilmikið um þessi mál á síðunni sinni.
Einar Örn - 20/11/03 15:23 #
Þetta er helvíti magnað með þetta finna.is dæmi. Ég var að skoða þetta í fyrsta skipti núna og fann þar á forsíðunni nánast heila grein eftir mig: Sjá hér.
Mér finnst að það verði að vísa beint í sjálfa greinina, en ekki bara einhver almenn vísun inná mína síðu. Alltaf þegar ég er að vitna í aðrar síður, þá er ég að fjalla um innihaldið, gangnrýna það eða lofa. Ég tek ekki bara efnið og læt einsog að það hafi verið skrifað fyrir minn vef.
Það lítur einna helst út einsog ég sé pistlahöfundur hjá finna.is.
DJ - 20/11/03 20:53 #
Jamm, allt saman satt og rétt. Áhugaverðast er kannski þegar "alvöru" miðlar stunda svona vinnubrögð.
Fræg er orðin rimman milli mbl.is og íþróttafélaga. Fyrir þá sem ekki kunna skil á henni þá snýst málið um það að sem kunnugt er kunna Morgunblaðsmenn illa við að myndir og efni sé tekið af þeirra vef og notað til birtingar annars staðar. Þeir virðast hins vegar sjá minna að því að þeir sjálfir verði sér úti um myndir annars staðar á vefnum, þ.á.m. hjá íþróttafélögum.
Það væri nú gaman ef einhver færi í mál hreinlega, sé ekki að menn komi til með að venja sig á betri siði bara af því að einhver bendi þeim kurteislega á að þeir séu að feta ranga slóð.