Ingibjörg níræð
Haldið var upp á níræðisafmæli Ingibjargar ömmu hennar Gyðu í dag. Hún er orðin frekar slöpp blessunin, þekkir fáa og man lítið. Var þó nokkuð hress í dag og entist allt boðið, við áttum ekki von á því.
Ingibjörg var afskaplega hress þegar ég hitti hana fyrst fyrir átta árum en henni hefur hrakað töluvert. Alltaf leiðinlegt að fylgjast með fólki hrörna.
Hún hafði samt gaman af því að hitta krakkana í dag, sá það þegar hún var kynnt fyrir Ingu Maríu sem er nefnd að hálfu leiti í höfuðið á henni.
Kolla kom okkur skemmtilega á óvart, þegar verið var að flytja tónlist tók hún sig til og dansaði á miðju gólfi. Hún er á þessu skemmtilega tímabili þar sem hún hefur ekki ennþæ lært að vera feimin, vonandi lærir hún það seint. Það kom mér og Gyðu í opna skjöldu hversu vel hún dansaði, við erum farin að ræða það alvarlega að koma henni í eitthvað dansnám.
Veitingar voru sérlega glæsilegar í dag og ekki þarf að spyrja að því, ég át alltof mikið af sætindum í kökugervi. Þess má geta að ég er með pistil í smíðum sem heitir af hverju leyfir fólk sér að fitna. Birgir var eitthvað að velta þessu fyrir sér og ég held ég hafi ágætis innsýn í þetta mál, búinn að fara í gegnum alla pakkann.