Henson - FC Hjörleifur
Henson 2 - 1 FC Hjörleifur
Leikurinn fór fram í Laugardalnum klukkan 21:30 í kvöld, veður var fínt, blankalogn og hlýtt. Þetta var gríðarlega mikilvægur leikur fyrir Henson þar sem ekkert annað en sigur dugði til að bjarga liðinu frá falli. FC Hjörleifur var efsta lið riðilsins fyrir lokaumferðina, nýkrýndir bikarmeistarar utandeildar og eina taplausa liðið í utandeildinni. Þeir höfðu einungis fengið á sig 4 mörk í átta deildarleikjum í sumar. Það var því á brattan að sækja fyrir Henson.
Ekki bætti úr skák að Henson mætti með vængbrotið lið þar sem tveir af burðarásum liðsins, Maggi og Orri mættu ekki. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um að ég var alveg brjálaður útaf því áður en leikurinn hófst.
Af þeim sökum þurfti 86 kílóa maðurinn að spila á miðjunni en ég hafði tæplega þrek í það.
Leikurinn hófst fjörlega, Hjörleifur var sterkara liðið til að byrja með en Henson átti hættulegar skyndisóknir og áttu betri færi í upphafi, Kjartan komst meðal annars í ágætt færi sem hefði mátt nýta betur.
Um miðjan fyrri hálfleik fékk Henson aukaspyrnu fyrir utan teig vinstra megin. Aggi tók spyrnuna og skaut föstum bolta framhjá veggnum sem ágætur markvörður Hjörleifs varði en hélt ekki. Kjartan fylgdi vel á eftir og kláraði færið. Áfram var Hjörleifur sterkara liðið, héldu boltanum vel og sóknir Henson fólustu aðallega í því að kýla boltanum fram og sjá hvað kæmi út úr því, það heppnaðist furðulega oft. Það er alveg ljóst að þarna má að stórum hluta kenna um miðjumanninum í litla forminu. Hjörleifur skapaði sér þó ekki mörg hættuleg færi, þeir eru mjög sterki í föstum leikatriðum og ollu þau yfirleitt usla. Sterk vörn Henson stóð sig vel og kom í veg fyrir að Hjörleifur skoraði mark úr slíkum færum. Feikilega sterkur hægri kantmaður Hjörleifs olli þó miklum vandræðum og átti margar góðar syrpur á kantinum.
Staðan í hálfleik 1-0 fyrir Henson.
Síðari hálfleikur var nokkuð fjörugur, Hjörleifur héldu boltanum ágætlega en skyndisóknir Henson urðu líka hættulegri. Þegar um 20 mínútur voru eftir skoruðu Hjörleifur eitthvað drullumark sem ég man ekkert hvernig var enda skiptir það engu máli.
Í stað þess að gefast upp spíttu menn í lófana og sóttu að marki Hjörleifs, síðustu 20 mínútur vorum við sterkari og sköpuðum okkur fleiri færi. Kjartan átti mjög gott skot rétt framhjá, Oddi var nokkrum sinnum við það að sleppa í gegn en dómarinn dæmdi ítrekað ranglega rangstæðu. Andri var að gera góða hluti frammi og vann vel aftur. Þrátt fyrir sóknartilburði Henson leit allt út fyrir að leikurinn myndi enda 1-1. Þegar stutt var eftir af leiknum var Snorri rekinn útaf fyrir að slá til leikmanns Hjörleifs (held ég, ég sá ekki atvikið). Þetta virtist gefa Henson aukakraft og við sóttum jafnvel ennþá stífar síðustu mínúturnar.
Á síðustu mínútu leiksins sótti Henson og uppskar hornspyrnu. Alli tók spyrnuna en menn voru eitthvað að hrópa á mig að taka hana. Ég skokkaði því til Alla sem gaf á mig þar sem ég stóð við teigshornið hægra megin, lék á varnarmann og gaf boltann fyrir. Þar var boltinn skallaður út í teig þar sem Andri kom askvaðandi og skallaði boltann glæsilega í hornið hægra megin, óverjandi.
Síðustu mínútu leiksins sótti Hjörleifur og fengu meðal annars aukaspyrnu á hættulegum stað, gáfu boltann fyrir en Henson náði að hreinsa. Í því flautaði ágætur dómari leiksins leikinn af og gríðarlegur fögnuður braust út meðal okkar enda höfðum við þarna bjargað okkur frá falli. Hrikalega er ég ánægður með þetta.
Leikurinn var þokkalega drengilega leikinn, Hjörleifsmenn vældu þó frekar mikið að mínu mati og náunginn á hliðarlínunni fór alveg á kostum í væluskap. Dómarinn dæmdi leikinn ágætlega, menn geta verið ósáttir við einhverja dóma en hann gerði ekki greinarmun á liðunum og var sanngjarn. Hjörleifsmenn hrópuðu eins og óðir menn í hvert sinn sem boltinn skoppaði á vellinum, meðal annars vildu þeir tvisvar fá dæmda á mig hendi þegar ég tók hann með bringunni, ég og dómari leiksins brostum báðir að þeim og ég sá ekki betur en að hann væri jafn hissa á þessu tuði og ég.
Frammistaða Henson í síðustu þremur umferðum er til fyrirmyndar og má segja að þar höfum við loksins sýnt okkar rétta andlit. Frammistaðan fyrri hluta sumars gaf engan vegin rétta mynd af getu liðsins. Það hlýtur að vera ágætt lið sem mætir eina taplausa liði utandeildarinnar og sigrar þó lykilmenn vanti. Við höfum skorað slatta af mörkum þrátt fyrir að ég hafi spilað í framlínu stóran hluta sumars.
Ég var ekki að gera góða hluti í dag, er einfaldlega ekki í formi til að spila á miðjunni. Átti þó af og til ágætis sendingar, var að gera þessu einföldu hluti sem vantaði stundum og átti svo fyrirgjöfina í lokin sem markið kom upp úr, það skiptir öllu máli :-) Ætla að missa 6-10 kg fyrir næsta tímabil og taka þetta með krafti.
Nú verður hægt að skemmta sér almennilega í lokahófinu, hvenær sem það svosem verður. Ég hefði ekki nennt á fyllerí ef við hefðum fallið :-)
Djöfulsins andskotans snilld.
Þetta er staðan eftir leiki kvöldsins, Kókóbomban og FC Kiddi eiga eftir að mætast og annað þeirra fer pottþétt upp fyrir okkur (hitt verður pottþétt fyrir neðan okkur) þannig að við endum tímabilið í sjöunda sæti sem er ekki gott heilt á litið, en frábær árangur miðað við stöðuna þegar þrjár umferðir voru eftir.
Ufsin og Hómer eiga eftir að spila, þannig að ef ekki verður jafntefli í þeim leik dettur Hjörleifur niður í þriðja sæti og eru því öruggir að komast í umspil.
1 | FC Diðrik | 9 | 28 | 11 | 17 | 20 |
2 | FC Hjörleifur | 9 | 25 | 6 | 19 | 18 |
3 | Ufsinn | 8 | 21 | 11 | 10 | 16 |
4 | FC Hómer | 8 | 21 | 14 | 7 | 16 |
5 | Pepsi | 9 | 15 | 13 | 2 | 10 |
6 | Henson | 9 | 18 | 23 | -5 | 9 |
7 | Kókóbomban | 8 | 14 | 19 | -5 | 9 |
8 | FC Moppa | 9 | 15 | 29 | -14 | 9 |
9 | FC Kiddi | 8 | 10 | 21 | -11 | 8 |
10 | Dynamo Norðurland | 9 | 10 | 30 | -20 | 4 |