Örvitinn

Austur Indía Fjelagið

Í tilefni dagsins fórum við hjónin út að borða á Austur Indía Félagið á föstudagskvöldið. Þessi staður hefur lengi verið í uppáhaldi hjá okkur og við keyptum veitingarnar í brúðkaupið okkar af þeim á sínum tíma. Höfum borðað mat frá þeim í fjórum af fimm brúðkaupsafmælum. Gerðum undantekingu eitt árið og fórum á Holtið.

Í fyrra treystum við okkur ekki til að setja Ingu Maríu í pössun þannig að ég sótti matinn. Við höfum ekki farið til þeirra síðan, reyndar borðað afganga hjá tengdó einu sinni en það er allt.

Við áttum pantað borð klukkan átta, mættum tímanlega og fengum okkur fordrykk, Gyða fékk sér Appolló (900) en ég fékk mér lítinn bjór (600).

Matseðillinn er töluvert breyttur, búið að einfalda og fækka réttum. Mér til hrellingar kom í ljós að rétturinn sem ég hafði ætlað að panta var ekki lengur á matseðlinum. Það er alveg ljóst að ég þarf að hætta að ákveða fyrirfram hvað ég ætla að fá mér þegar við förum út að borða.

Í forrétt fengum við okkur Pakora rækjur (1295) og kempu kjúkling (1295). Báðir réttirnir voru bragðgóðir en mér þótti naumt skammtað, þrír litlir bitar í hvorum rétt auk smá grænmetis.

Aðalréttirnir voru annars vegar Hashmiri gosht (3295) lambaréttur og Murg Hariyali (2295) kjúklingaréttur. Lambarétturinn var örlítið sterkari, þó ekki mjög sterkur en bragðgóður. Kjúklingarrétturinn var bragðmildur, minnir að hann hafi verið með grænu karrý, a.m.k. var rétturinn fallega grænn. Báðir aðalréttir voru vel heppnaðir.

Á Austur Indía Félaginu pantar maður allt meðlæti sér, einungis hvít hrísgrjón fylgja með. Við pöntuðum raithu (395), palya kartöflur (995) og tvær tegundir af nan brauði (295), með og án hvítlaukssmjörs.

Með matnum drukkum við flösku af Pfaffenheim hvítvíni (3590) sem var sérstaklega gott.

Þjónustan var mjög góð. Við sátum í reyklausa hlutanum og fundum lítið fyrir reykingum fyrri hluta kvöldins en þær jukust til muna þegar leið á kvöldið. Eiginkona mannlífsfótboltastjörnunnar reykti eflaust tíu sígarettur á einum og hálfum tíma, þegar hún var ekki upptekin við að tala í gemsann sinn. Ég hlakka til þegar þessi ósómi verður bannaður á veitinga og skemmtistöðum.

Reikningur kvöldsins hljóðaði upp á 15.250.- kr. Reyndar bættust við 295 kr. þegar gert var upp þar sem gleymst hafði að bæta inn auka skammti af nan brauði sem ég pantaði. Mér finnst nú að það eigi bara að sleppa svona smámunum ef það gleymist að setja það á reikninginn. Við vorum bæði pakksödd og slepptum því eftirréttum, röltum niður í bæ og fengum okkur einn drykk áður en við héldum heim með strætó.

veitingahús
Athugasemdir

Regin - 24/08/03 17:32 #

15.250.- krónur er ástæðan fyrir því að ég er hættur að fara á þessa búllu. Örugglega dýrasti staðurinn í bænum. Mæli miklum mun frekar með veitingahúsinu Ban-Thai. Svipaður matur bara mun Munódýrari og alls ekki síðri.

Matti - 24/08/03 17:49 #

Neinei, þetta er langt frá því að vera dýrasti staðurinn á bænum. Þetta er náttúrulega fínn staður og því þarf að bera hann saman við staði í sama flokki.

La Prima Vera er t.d. álíka dýr staður og ég var alls ekki ánægður eftir síðustu heimsókn þangað. Sommalier er mun dýrari og svo mætti lengi telja.

Ég stefni á að prófa takeout staðinn sem eigendur Austur Indía Félagsins voru að opna á Hverfisgötunni um daginn, þar er verðið víst skaplegra.

En það er helvíti dýrt að fara út að éta hér á skerinu, eiginlega alveg heimskulega dýrt.