Örvitinn

Leikskóli, atvinnuleit og ræktin

Á morgun byrjar Inga María í aðlögun í leikskólanum. Við mætum klukkan tíu og verðum í klukkutíma, ég verð með henni allan tímann. Daginn eftir skrepp ég fram á kaffistofu í smá tíma og svo eykst fjarvera mín smátt og smátt.

Ég er nokkuð bjartsýnn á að þetta muni ganga vel, held að Inga María sé bara dáldið spennt að byrja og trúi ekki öðru en að hún sé orðin þreytt á pabba sínum og taki því fagnandi að fá að leika við krakkana á bangsadeild.

Ég er að fara að setja smá kraft í atvinnuleit, skrá mig á stofur og sækja um störf. Er búinn að vera ansi rólegur hingað til en ég átti nú líka inni sumarfrí. Þegar Inga María er komin á leikskóla verður svo allt sett á fullt. Hringdi í mannafl áðan og ræddi þar við minn mann. Lítið að gerast en ég er enn inni í myndinni í þessu eina starfi sem við höfðum rætt um. Það er svosem betra að bíða en að vera búinn að fá afsvar!

Undanfarið hef ég lítið sem ekkert komist í ræktina, ætlaði að fara í dag en fer á fótboltaæfingu í kvöld í staðin. Fer að lyfta á morgun. Vandamálið við að lyfta svona óreglulega er að maður verður alltaf aumari og aumari. Ég er nú ekkert rosa buff þannig að ég má ekki við vöðarýrnun.

dagbók prívat