Örvitinn

Líf eftir dauðann?

Furðulegt að nokkur maður sjái eitthvað annað en innantómt þvaður í þessum orðum sem Árni vitnar í:

"Hvað er að deyja? Ég stend á bryggjunni. Skúta siglir út sundið. Það er fögur sjón. Ég stend og horfi á eftir henni uns einhver nærstaddur segir með trega í röddinni: 'Hún er farin.' Farin, hvert? Farin mínum sjónum séð, það er allt og sumt, hún heldur samt áfram siglingu sinni, með seglin þanin í sumarþeynum, og ber áhöfn sína til annarrar hafnar.

Þótt skútan hafi fjarlægst mig, mynd hennar dofnað og loks horfið, þá er það aðeins fyrir augum mínum. Og á sömu stundu og einhver við hlið mér segir: 'Hún er farin!' þá eru aðrir sem horfa með óþreyju á hana nálgast og hrópa: 'Þarna kemur hún!' - og svona er að deyja."

Er maður einhverju fróðari um dauðann eftir lesturinn? Nei, ekki vitund. "'Þarna kemur hún!' - og svona er að deyja?" Er þetta skrifað af sýruhaus? Hverjir horfa með óþreyju á hana nálgast?

Ég er alltaf jafn hissa á því hve fólk er hrifið af innihaldslausu þvaðri. Flest það sem prestar láta út úr sér flokkast undir slíkt. Raddbönd þeirra senda frá sér bylgjur sem skella á hlustum mínum, ég heyri hvað mennirnir segja. Trúið mér, í skírnum, fermingum, brúðkaupum og jarðaförum er ég yfirleitt einn fárra sem hlusta á það sem kyrtillinn lætur frá sér. Innihaldslaust þvaður, marklaust bull. Prestar hafa ekki einkarétt á innihaldslausu þvaðri, snjallir markaðsmenn fylla Háskólabíó, selja hvert sæti fyrir tugþúsundir og ausa innihaldslausu þvaðri yfir fólki sem blotnar í klofinu þegar snillingurinn á sviðinu heldur langa tilfinningaþrungna þrautæfða ræðu um ekki neitt. Erlendir fræðimenn sem hingað koma hljóta athygli í öfugu hlutfalli við gildi þess sem þeir segja, því ómerkilegra og augljósara sem spekin er, því meira rými fá þeir í umræðunni. "Dr. Zeus heldur því fram að vatn sé ekki bara blautt, heldur líka kalt, ef maður kælir það, meira um það í Kastljósi eftir fréttir"

Hvað er dauðinn? Dauðinn er það sem tekur við þegar lífinu líkur, þegar heilinn hættir að starfa, meðvitundin slokknar í síðasta sinn. Við vorum öll dauð áður en við fæddumst, förum í nákvæmlega sama ástand eftir að við deyjum, eini munurinn er sá að við skiljum eftir okkur kjötskrokk. Ég vil láta brenna það sem verður eftir af mínum. Við verðum ekki lengur til. Það er ekkert himnaríki, ekkert helvíti, engir handanheimar fullir af heilalausum hálfvitum sem muna ekki hvað þeir heita en þurfa endilega að komast í samband við fjarskylda ættingja til að segja þeim að hætta að stressa sig á peningamálum. Eftir að við deyjum verðum við álíka meðvituð um tilvistarleysi okkar og við vorum áður en við vorum getin.

Ég held það sé ekki nokkur von um að menn geti öðlast almennilega virðingu fyrir því hversu lífið er dýrmætt fyrr en þeir troða þeir inn í hausinn á sér að við fáum bara eina umferð, einn séns og ef við klúðrum því þá er það búið. Ekkert Undo, ekkert Copy-Paste.

Hin ýmsu trúarbrögð þrífast á því að selja hugmyndina um líf eftir dauðann. Kristni gengur svo út á því að stórum hluta að koma í veg fyrir að menn lifi lífinu fyrir dauðann. Menn eiga að skammast sín fyrir allt sem þeir gera, eðlilegustu kenndir verða að dauðasyndum, skemmtanir litnar hornauga og það eina sem Gvuðinum þóknast er undirgefni og aumingjaskapur. Rétta hina kynnina, jafnvel þó maður hafi verið sleginn með skeinihendinni. Auðvitað eru trúarbrögðin að selja svikna vöru, af hverju haldið þið að þau hafi eytt svona mikilli orku í að traðka á þeim sem dirfðust að efast um gildi vörunnar, dirfðust að spyrja um síðasta söludag og hvort hægt væri að fá vitnisburð ánægðra viðskiptamanna. Hafa svo oft verið staðin að verki við að falsa vöruna að þau eru hætt að þræta fyrir það. "Við gerðum það bara í den, alveg hættir í dag... ég sver, tíu fingur til Gvuðs"

Menn geta reynt að komast hjá því að ræða þessi mál með því að rökræða um skilgreiningar, færa allt erfiðið á herðar þeirra sem í raun fullyrða ekki neitt. Það breytir því ekki að menn þora ekki að svara, standa bara með sínum biskup og segja ekki neitt. "Biskup meinti ekki það sem hann sagði, sagði ekki það sem hann meinti, sagði ekki það sem hann sagði."

Ný manntegund? spyr Birgir, gáttaður á því sem hann les. Ég er alveg hættur að nenna að skrifa á trúmálaþræðina, bæði á strikinu og vísi. Reyndi að taka þátt í hommaumræðu um daginn á vísi en gat ekki sent inn athugasemdir, hommahatarinn jeremia fær því að ráfa þar um nokkuð óáreittur. Uppfært: ég get póstað á vísi ef ég nota IE, ekki ef ég nota thunderbird! skrítið.

Ef einhverjum dettur í hug að þetta sé innihaldslaust þvaður.....

efahyggja
Athugasemdir

Halldór - 10/08/03 09:41 #

Blessaður Matti, ég held það sé um margt rétt hjá þér að oft á tíðum tali kirkjunnar menn á þann hátt að það virðist marklaust hjal og orðagjálfur. Hins vegar erum við hér eins og oft áður að glíma við merkingu orðanna, vanda sem er að koma fram í tali mínu við birgir.com á trúmálaþráðum striksins þessa dagana og þó tæpir á hér að ofan. Þeir sem hlusta á prestinn, lesa orðin um skútuna og eru sannfærðir um heim að loknum þessum heyra sjálfsagt allt aðra hluti en þú sem hafnar himnaríki.

Matti - 11/08/03 14:39 #

Sæll Halldór,

Það er óvænt ánægja að djákninn sjálfur skuli líta yfir þetta raus mitt, liggur við að ég fari að vanda mig ;-)