Örvitinn

Óvænt heimferð, úldinn kjúklingur

Ég og Gyða skutumst í bæinn í dag, skyldum stelpurnar eftir hjá ömmu sinni og afa í bústað. Ástæðan fyrir bæjarferð var sú að í gær tókst mér af minni alkunnu snilld að rústa uppsetningunni á ferðavélinni og gat ekki ræst hana aftur. Ég er það mikill tölvusjúklingur að ég gat ekki hugsað mér að eyða restinni af fríinu tölvulaus (gat líka vísað til þess að þá gætum við ekki fært neinar myndir yfir í tölvuna og það væri stutt í að kortin fylltust, sem er ekki algjörlega satt en látum það liggja milli hluta).

Það tekur ekki nema klukkustund að keyra heim og ókum við hvalfjörðinn í góðu veðri.

Þegar heim var komið tókum við eftir því að rafmagnslaust var í húsinu. Við fórum í það að henda úr ísskáp og frysti, þar með talið fimm heilum kjúklingum sem voru í frysti auk poka af kjúklingabringum. Sjálfsábyrgð heimilistryggingu er fimmtán þúsund krónur þannig að ekki fáum við þetta bætt. Við erum fegin að hafa skotist heim í dag, hefði varla verið glæsileg aðkoma á föstudaginn.

Ég lagaði uppsetninguna á tölvunni meðan Gyða þreif frystinn og við skunduðum aftur í bústaðinn með viðkomu í matvöruverslun.

Í kvöld át ég alltof mikið af lambakjöti og bökuðum kartöflum, drakk einn bjór og smá hvítvín og svo spiluðum við Liverpool.

Ég kláraði að lesa Mýrina hans Arnalds Inriðasonar í dag, byrjaði á henni í gærkvöldi. Ágætis bók, skil samt ekki allt það lof sem hún fær, norðurlandaverðlaun fyrir spennusögur. Nenni varla að byrja á næstu Arnalds Indriða bók sem hér er að finna, er að spá í að klára einhverja aðra, t.d. Cryptonomicum sem ég byrjaði á fyrir þremur árum en hef ekki litið í síðan eða Samúel eftir Mikael Torfason, en þá bók fékk ég einmitt í jólagöf, byrjaði á en nennti ekki að klára.

Ég hringdi í mannafl í dag og ræddi við Davíð Frey, hann sendi ferilskrána mína á eitt fyrirtæki, lítið hugbúnaðarfyrirtæki sem er að leita að forritara. Niðurstöðu úr því er að vænta í næstu viku. Ég reyni að leggja ekkert alltof miklar vonir í þetta, hef ennþá nægan tíma.

prívat
Athugasemdir

JBJ - 29/07/03 12:28 #

Mýrin er ágætasta sakamálasaga, ekkert stórvirki en fín pocketbók held ég.

Samúel er tja... ekki að mínu skapi.

Las Samúel í dag. Tja... hvað skal segja. Enn ein íslensk angistarbókin um firringu geðveiks manns og skot á núverandi skipan samfélagsins. Íslenskar angistarbókmenntir eru ekki í miklu uppáhaldi hjá mér, því miður virðist angist það sem flestir höfundar íslensks skáldskapar hafa fram að færa?

Matti - 29/07/03 21:36 #

Ég kláraði að lesa Samúel í dag og er sömu skoðunar og þú, þótti bókin eiginlega bara frekar leiðinleg og ómerkileg.