The bug - skáldsaga um hugbúnaðarvillu
Kláraði að lesa The Bug eftir Ellen Ullman í gærkvöldi, hafði ætlað að bíða með lestur bókarinnar fram að sumarbústaðarferð en stalst til að kíkja í bókina og gat ekki hætt.
Sagan gerist á árunum 1983-1985 og fjallar um starfsmenn hugbúnaðarfyrirtækis sem vinnur að því að smíða gagnagrunnskerfi og gluggaviðmót en á þessum tíma voru fyrstu gluggaviðmótin að verða til. Fjallað er um einkalíf helstu aðalpersóna, forritarans Ethan og prófarans
Robertu en hún er sögumaður bókarinnar. Hugbúnaðarvilla kemur upp í þeim hluta kerfisins sem Ethan sér um en hvorki gengur né rekur að finna orsök villunnar sem lætur á sér kræla á verstu mögulegu tímum. Á sama tíma er einkalíf hans í rúst og ekki hjápar það til. Mikil pressa er á fólki, lokaskil færast nær og fjárfestar verða sífellt stressaðari.
Þetta hljómar vafalítið ekki spennandi en stór hluti bókarinnar hélt mér hugföngnum. Þegar fjallað er um hugarheim forritara í dauðaleit að villu finn ég til mikillar samkennar með Ethan, sálarkreppurnar sem hann lendir í eru afskaplega kunnuglegar. Einnig gaman að þeirri pólitík sem viðgengst í hugbúnaðarfyrirtækjum. Lýsingar á starfsumhverfi og aðferðum forritara eru að mörgu leiti mjög góðar, fjallað er um hluti eins og kóðarýni, aflúsun (debugging) og Source Control
. Vissulega væri hægt að finna eitthvað að lýsingum hér og þar en þá væri maður kominn út í hártoganir.
Oft fannst mér tæknilegt umhverfi bókarinnar vafasamt miðað við hvenær hún gerist en ég verð að játa að ég hef ekki nægilega þekkingu á stöðu tæknigeirans á þessum tíma. Ég geri ráð fyrir að höfundur bókarinnar hafi góða þekkingu á þessu enda starfaði hún í hugbúnaðargeiranum á þessum árum.
Ég fullyrti við Gyðu í gær að hún myndi ekkert hafa gaman að þessari bók en ég veit ekki alveg hvort það er satt. Þetta er ekki bara bók um forritara í villuleit heldur einnig manneskjur og brestina í lífi þeirra.
Að mínu mati, frábær skáldsaga.